Lokaumferð deildarkeppninnar: El Classico gegn Keflavík!Prenta

Körfubolti

Lokaumferðin í Subwaydeild kvenna fer fram í kvöld og fyrir ljónynjurnar í Njarðvík verður hún eins skemmtileg og hugsast getur með El Classico viðureign gegn Keflavík. Viðureign liðanna hefst kl. 19:15 í Blue-Höllinni og græna hjörðin þarf að mæta með læti!

Fyrir leikinn í kvöld er ljóst að Keflavík er deildarmeistari en það er enn barist um önnur sæti í deildinni fyrir úrslitakeppnina og þar eru Njarðvík og Grindavík jöfn að stigum í 2.-3. sæti deildarinnar, bæði með 32 stig fyrir lokaumferðina (16 sigrar og 7 tapleikir).

Eins og mörgum er ljóst var gerð breyting á fyrirkomulaginu í Subway-deild kvenna fyrir þessa yfirstandandi leiktíð þar sem leikin var hefðbundin deildarkeppni heima og að heiman og svo var deildinni skipt upp í A og B hluta. Fimm efstu lið deildarinnar fóru í A-hluta og restin í B-hluta. Í A-hluta eru Njarðvík, Keflavík, Grindavík, Haukar og Stjarnan en í B-hluta eru Valur, Þór Akureyri, Fjölnir og Snæfell. Í ár eru það örlög Snæfells að fara inn í úrslitakeppnina í 1. deild til þess að berjast um áframhaldandi sæti í Subway-deildinni.

Það sem við vitum fyrir kvöldið er að í fyrstu umferð úrslitakeppninnar mætast Keflavík og Fjölnir. Keflavík eitt á toppnum og Fjölnir í 3. sæti (8.sæti) í B-deild og munu eftir leiki kvöldsins ekki færast ofar né neðar í töflunni. Öðru máli gegnir um næstu tvö lið í B-hlutanum en það eru Valur og Þór Akureyri sem mætast í úrslitaleik í kvöld um hvort liðið klárar í 1. sæti B-hlutans.

Án þess að farið sé mikið dýpra í þá möguleika sem uppi eru í kvöld er nokkuð ljóst að okkar konur þurfa að finna sigur gegn Keflavík til þess að vera öruggar með 2. sæti en að öðru leyti þarf Njarðvíkurliðið að stóla á að Stjarnan hafi betur gegn Grindavík. Ef liðin eru áfram jöfn eftir kvöldið að stigum þá hefur Njarðvík betur innbyrðis með 3-1 í deildarleikjum og endar ofar.

Hvað sem raular og tautar þá ætlum við að mála stúkuna græna í kvöld og styðja okkar konur!
Áfram Njarðvík

ATH: Á morgun er svo lokaumferðin í Subwaydeild karla þar sem Njarðvík tekur á móti Val. Það verður fjör í Gryfjunni, grillaðir borgarar fyrir leik og góður körfubolti, ekki láta þig vanta á besta skemmtistaðinn í bænum.

Mynd með frétt/ Márus Gunnar Björgvinsson