Yngvi Páll: Vonast eftir frábærri auglýsingu fyrir kvennakörfunaPrenta

Körfubolti

Yngvi Páll Gunnlaugsson þekkir vel til Njarðvíkinga og Hauka en liðin mætast í undanúrslitum í VÍS-bikarkeppni kvenna á morgun kl. 20.00 í Smáranum í Kópavogi. Yngvi Páll hefur þjálfað bæði í Njarðvík og hjá Haukum og er í dag yfirþjálfari yngri flokka hjá Grindavík. UMFN.is tók stutt hús á Yngva sem sagði Njarðvíkinga ekki þurfa að örvænta þó Haukar væru sigurstranglegri fyrir leikinn, Njarðvík hafi sýnt það að liðið hafi það sem til þarf til að leggja Hauka að velli.

Hvernig líst þér á leikinn annað kvöld og hvað sérð þú svona í spilunum fyrir leik?
„Fyrirfram eru Haukar mun sigurstranglegari þrátt fyrir gott gengi Njarðvíkinga í vetur. Njarðvík hefur aðeins gefið eftir undanfarið en þessi undanúrslitaleikur gæti verið akkúrat sú vítamínsprauta sem liðið þarf á að halda. Bæði liðin þekkja hvert annað og hafa unnið á víxl í vetur og það á útivelli sem er merki um styrkleika beggja liða. Njarðvíkingar hafa sýnt sjálfum sér að þeir geti unnið Hauka og Hafnfirðingum ætti að vera það vel ljóst. Njarðvíkurkonur mega þó hvergi vera bangnar þó það megi setja þær sem „underdogs” í leiknum því fyrir vikið geta þær komið afslappaðri til leiks og látið taflið snúa þannig að Haukar hafi öllu að tapa.”

Hver eru lykilatriði leiksins að þínu mati?
Breiddin hjá Haukum er gífurlega öflug en það segir sig svo alveg sjálft að lykillinn hjá Njarðvík er hvernig þær ná að hemja Helenu í leiknum nú eða þá að hemja hinar því þá þarf Helena að eiga stórleik. Að sama skapi er Njarðvík með mjög góða leikmenn eins og í Collier. Ég held að þetta sé akkúrat leikur fyrir Collier þar sem hún gæti sýnt sinn langbesta leik til þessa enda komin þetta langt með liðið inn í tímabilið með hverri öflugri frammistöðunni á fætur annarri.”

Hvað með þjálfarapörin? Hvernig raðar þú þeim upp hvert gegn öðru?
Rúnar Ingi var eldklár leikmaður og kann alveg leikinn og hefur sjálfur sem leikmaður farið í marga úrslitaleiki. Þá er líka stórleikjareynslu að finna í Lárusi svo þeir hafa fengið sinn skerf af úrslitaleikjum í gegnum tíðina. Ég held að þetta ráðist nú samt meira inni á vellinum frekar en á teikniblokk þjálfaranna. Mitt mat er að Njarðvík þarf miklu fremur að finna taktinn varnarlega frekar heldur en sóknarlega þar sem ég hef minni áhyggjur af þeim. Annars vona ég bara að þetta verði spennandi leikur og þar af leiðandi frábær auglýsing fyrir kvennakörfuna.

  • Miðasala á StubburApp
  • Rútuferðir frá Njarðvík (ath takmarkað sætaframboð)
  • Beint á RÚV
  • Mæta í grænu

Mynd/ UMFG.is – Yngvi Páll Gunnlaugsson hefur þjálfað bæði í Njarðvík og hjá Haukum.