Vilborg: Ætlum að mæta tilbúnarPrenta

Körfubolti

Fyrirliðinn Vilborg Jónsdóttir verður í eldlínunni í kvöld þegar Njarðvík heimsækir Hauka í fyrstu umferð Subway-deildarinnar. Njarðvíkurkonur fá þarna ærið verkefni gegn heitu Haukaliði sem nýverið varð VÍS-bikarmeistari og komst í riðlakeppni EuroCup. Vilborg segir undirbúningstímabilið hafa verið skemmtilegt og bætti við að Haukar væru með mjög fínt lið þetta tímabilið. Viðureign liðanna hefst kl. 20:15 í Ólafssal í Hafnarfirði.

Hvernig leist þér á spá formanna og fyrirliða fyrir komandi tímabil?
Mér leist bara vel á spánna, þótt hún þýðir voða lítið fyrir okkur. Við erum með okkar eigin markmið sem lið sem við viljum ná og vinnum að þeim.

Hvernig metur þú undirbúningstímabilið hjá Njarðvík fram að móti?
Undirbúningstímabilið er búið að vera skemmtilegt, mikið af góðu en sömuleiðis hellingur sem við höfum verið að laga og finnst mér það búið að ganga vel.

Liðið fékk þrjá nýja erlenda leikmenn í sumrinu, hvernig hefur gengið að stilla saman strengina?
Það hefur gengið ágætlega myndi ég segja. Mikill munur fyrir okkur að fá þrjá nýja leikmenn inn í liðið og læra inn á þær og þeirra styrkleika og sömuleiðis þær að læra á okkur og hvernig það er að spila körfubolta hérna. Þetta er allt að koma saman.

Stórleikur gegn Haukum í fyrstu umferð, hvernig leggst það í ykkur sem og komandi tímabil?
Við erum bara spenntar að byrja að spila og koma þessu öllu afstað, Haukarnir náttúrulega búnar að spila nokkra erfiða leiki seinustu daga og eru með mjög fínt lið, en við erum það líka og ætlum að mæta tilbúnar á móti þeim og spila okkar bolta. Annars leggst tímabilið bara mjög vel í okkur!

Að lokum spurðum við Vilborgu hvort hún hefði ekki skilaboð til stuðningsmanna Njarðvíkur:

Ég myndi vilja segja að endilega reyna mæta á sem flesta leiki hjá okkur í vetur og styðja okkur. Við lofum skemmtilegum leikjum og skemmtilegum bolta og ykkar stuðningur veitir alltaf auka orku. Áfram Njarðvík í vetur!

Mynd/ JBÓ: Vilborg í leik gegn Fjölni í undanúrslitum VÍS-bikarsins.