Vestur-Evrópumót í MassaPrenta

Lyftingar

Massi – lyftingardeild UMFN, hélt glæsilegt alþjóðlegt mót helgina 8.-10. september þar sem öllu var til tjaldað í Ljónagryfjunni. 101 keppendur tóku þátt. Með þjálfurum og öðru fylgdarliði mættu 170 manns frá evrópu á mótið, þar á meðal voru hátt settir aðilar IPF og EPF .
Mótið fór mjög vel fram og voru allir hæst ánægðir með umgjörina en þetta er líklega stærsta og glæsilegasta kraftlyftingarmót sem haldið hefur verið hér á landi.

Kraftlyftingarsamband Íslands valdi 17 keppendur í íslenska hópinn.
Í klassískum kraftlyftingum voru 11 Íslendingar og í kraftlyftingum með útbúnaði voru þau 6.

Á fyrsta keppnisdegi á Vestur-Evrópumótsinu luku þrír íslenskir keppendur keppni í klassískum kraftlyftingum.

Drífa Ríkarðsdóttir átti góða innkomu á sínu fyrsta alþjóðamóti og blandaði sér í baráttu um verðlaun, bæði í bekkpressu og réttstöðulyftu. Endaði hún í 4. sæti í -57 kg flokknum með 377.5 kg í samanlögðum árangri sem er bæting á Íslandsmeti Ragnheiðar Kr. Sigurðardóttur, en þar að auki bætti hún sitt eigið met í réttstöðulyftu um heil 10 kg. Sigurvegari í flokknum varð Lara Fumagalli frá Ítalíu með 412.5 kg í heildarárangri.

Hilmar Símonarson keppti að þessu sinni léttur í -74 kg flokki, en hann hefur síðastliðin ár keppt í -66 kg flokknum þar sem hann á öll Íslandsmetin. Hilmar tók örugga seríu og náði sjö gildum lyftum með samanlagðan árangur upp á 535 kg sem skiluðu honum silfri í flokknum. Hann á þó vafalaust eftir að vaxa enn frekar og styrkjast sem keppandi í nýjum þyngdarflokki sem verður gaman að fylgjast með því. Sigurvegari í flokknum varð Bretinn Saber Miah með 660 kg í samanlögðum árangri.

Friðbjörn Bragi Hlynsson er nýkrýndur Vestur-Evrópumeistari í klassískum kraftlyftingum í
-83 kg flokki. Friðbjörn sem mætti í mjög góðu keppnisformi, hélt forystunni frá upphafi með öruggum og taktískum hætti og virtist eiga inni í öllum greinum, en hann tryggði sér titilinn með heildarárangri upp á 687.5 kg sem er mjög nálægt hans eigin Íslandsmeti. Silfurverðlaun í flokknum komu svo í hlut Norðmannsins Alexander Kleivene sem náði 662.5 kg í samanlögðum árangri.

Átta íslenskir keppendur luku keppni í klassískum kraftlyftingum á öðrum degi Vestur-Evrópumótsins. Var árangurinn í heildina góður og náði hópurinn að sópa að sér mörgum verðlaunum.

Ragnhildur Marteinsdóttir sem keppti í -76 kg flokki, byrjaði brösuglega í hnébeygjunni sem kom þó ekki að sök, því í heildina átti hún mjög góðan dag á keppnispallinum. Ragnhildur bætti sig í öllum greinum og stóð uppi sem silfurverðlaunahafi í flokknum með 370 kg í samanlögðum árangri. Sigurvegari í flokknum var Megan Fitzpatrick frá Írlandi með 405 kg í heildarárangri.

Þorbjörg Matthíasdóttir í +84 kg flokki sló heldur ekki slöku við og var með persónulega bætingu bæði í bekkpressu og samanlögðum árangri. Hafnaði hún í þriðja sæti í flokknum með heildarárangur upp á 457.5 kg og fór heim með bronsverðlaunapening. Sigurvegari í flokknum var hin breska Aquinn Omeoha með 537.5 kg í samanlögðum árangri.

Alexander Kárason blandaði sér strax í baráttu um verðlaun, en rétt missti af bronsi í hnébeygju til Hollendingsins Jody de Ruiter. Hann bætti sér það þó upp með persónulegri bætingu, bæði í bekkpressu og réttstöðulyftu og náði jafnframt bronsverðlaunum fyrir bekkpressuna. Samanlagður árangur hans var 777.5 kg sem er nýtt Íslandsmet í -93 kg flokknum og skilaði honum þriðja sætinu og bronsi fyrir heildarárangur.

Viktor Samúelsson keppti í -105 kg flokki og hafnaði í 4. sæti í flokknum með 790 kg í samanlögðum árangri. Náði hann góðum árangri í bekkpressu, þar sem hann vann til silfurverðlauna og í réttstöðulyftu þar sem hann hlaut brons.

Jón Dan Jónsson keppti einnig í -105 kg flokki og var að keppa á sínu öðru alþjóðamóti. Hafnaði hann í 9. sæti með 690 kg í samanlögðum árangri. Sigurvegari í flokknum varð Sanches Dillon frá Bretlandi.

Aron Friðrik Georgsson keppti í -120 kg flokki og hafnaði þar í 4. sæti með 777.5 kg í samanlögðum árangri. Hann fór þó ekki tómhentur heim af mótinu því hann nældi sér í bronsverðlaun í bekkpressunni með 190 kg lyftu.

Filippus Darri Björgvinsson keppti líka í-120 kg flokki og var að keppa í annað sinn á Vestur-Evrópumóti. Náði hann 6. sætinu í flokknum með samanlagðan árangur upp á 730 kg.

Þorsteinn Ægir Óttarsson keppti í +120 kg flokki og vann til bronsverðlauna í flokknum með 827.5 kg í samanlögðum árangri. Bætti hann árangur sinn í hnébeygju og beygði heil 332,5 kg sem er nýtt Íslandsmet í opnum flokki. Beygjan er sú þyngsta sem hefur verið tekin innan Kraft í klassískum kraftlyftingum og jafnframt sú stigahæsta. Þá hlaut Þorsteinn einnig silfur í hnébeygju og brons fyrir bekkpressu og réttstöðulyftu.

Á síðasta keppnisdeginum á Vestur-Evrópumótinu þá var keppt í kraftlyftingum með útbúnaði. Sex íslenskir keppendur stigu á keppnispall, tvær konur og fjórir karlar.

Þóra Kristín

Halla Rún Friðriksdóttir sem keppti í -76 kg flokki féll því miður úr keppni í hnébeygjunni en bætti sér það upp með gullverðlaunum í bekkpressu og réttstöðulyftu.

Þóra Kristín Hjaltadóttir keppti í -84 kg flokki og féll sömuleiðis úr í hnébeygjunni, en hlaut bronsverðlaun í bekkpressu og réttstöðulyftu.

Björn Margeirsson sem keppti í -83 kg flokki vann til silfurverðlauna í flokknum með samanlagðan árangur upp á 585 kg. Þá hlaut hann einnig brons fyrir hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu.

Egill Hrafn Benediktsson keppti í -120 kg flokki og vann þar til bronsverðlauna, en hann náði að lyfta 710 kg í samanlögðum árangri. Egill sem lyfti 300 kg í hnébeygju fékk einnig gull í þeirri grein og brons í bekkpressu og réttstöðulyftu.

Árni Snær Jónsson keppti í +120 kg flokki og náði bronsverðlaunum með 710 kg í samanlögðum árangri. Árni hlaut einnig bronsverðlaun fyrir hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu.

Guðfinnur Snær Magnússon sem keppti líka í +120 kg flokki hafði mikla yfirburði í flokknum og vann til gullverðlauna með 1015 kg í samanlögðum árangri. Þá hlaut hann silfur fyrir hnébeygju og gull fyrir bekkpressu og réttstöðulyftu. Náði hann góðum persónulegum bætingum, bæði í hnébeygju þegar hann lyfti 405 kg og einnig í réttstöðu með 310 kg lyftu. Í heildina bætti hann sinn eigin samanlagða árangur um 15 kg. Guðfinnur varð jafnframt stigahæsti keppandinn yfir alla þyngdarflokka með 89.04 IPF stig.

Guðfinnur Snær
Halla Rún
Alexander ásamt Gabríel

Eftir mót var lokahóf haldið á Ránni þar sem verðlaun og viðurkenningar voru veittar. Á hófinu voru Ellert Björn Ómarsson og Guðlaug Olsen frá Massa kölluð upp og þeim afhentar viðurkenningar og miklar þakkir fyrir virkilega vel skipulagt mót en umgjörð og skipulag mótsins þótti á heimsmælikvarða.

Ellert og Gunnlaug

“Þau voru það ánægð með okkur að við vorum beðin um að halda heimsmeistaramót að ári. Það er mikill heiður og í raun risastórt. Til marks um það þá kemur Eurosport til landsins og streymir beint frá mótinu. Þetta er þriðja stórmótið sem við höldum en við erum búin að halda eitt Norðurlandamót og tvö Evrópumeistaramót. Heimsmeistaramót væri því skemmtileg viðbót. Við Ellert erum að hugsa málið“ sagði Guðlaug í samtali við Víkurfréttir.

Massi óskar öllum keppendum til hamingju með frábæran árangur. 

Við viljum einnig sérstaklega þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið í framkvæmd mótsins. Það er ómetanlegt að hafa fólk sem er tilbúið að fórna tíma fyrir félagið! Án ykkar væri þetta ekki mögulegt.

Hægt er að skoða fleiri myndir inn á https://www.vf.is/ithrottir/glaesilegt-evropumot-i-njardvik og einnig inni á

https://www.facebook.com/europowerlifting

Hluti af þeim frábæra Massa hóp sem koma að mótinu