Ungu strákarnir leiddu Njarðvík í auðveldum sigri í GryfjunniPrenta

Körfubolti

Í kvöld áttust við í Ljónagryfjunni heimamenn í Njarðvík og FSU. Leikurinn í 17. Umferð Domino´s deildarinnar þar sem staða liðanna var þannig að þeir grænklæddu í 5. sæti en FSU í 11. sæti. 11 dagar síðan að Njarðvík spilaði síðast leik en fresta þurfti leik þeirra við Tindastól í 16. umferð og spurning hvort þessi litla hvíld hafi gert mönnum gott.
Leikurinn fór frekar rólega af stað en Haukur Helgi var öflugur í byrjun leiks og setti hann niður 7 fyrstu stig heimamanna sem höfðu tökin allt frá byrjun. Njarðvíkingar spiluðu stífa vörn frá byrjun og pressuðu boltann allan tímann sem skilaði sér í mörgum töpuðum boltum hjá FSU. Njarðvík var að spila glimrandi sóknarleik á sama tíma þar sem boltinn fékk að fljóta vel og endaðu sóknirnar oftast með opnu skoti. 30-15 staðan að loknum 1. leikhluta og má segja að grunnurinn hafi verið lagður strax í byrjun.

Njarðvík hélt uppteknum hætti í 2 leikhluta en Friðrik þjálfari þeirra leyfði ungu strákunum að spreyta sig mikið. Adam Eiður Ásgeirsson kom sterkur inn í liði heimamanna í leikhlutanum og setti hann niður 11 stig þar af 3 þriggja stiga körfur en hann ásamt Snjólfi Stefánssyni og Jóni Arnóri héldu upp mikilli pressuvörn á gestina sem þeir voru ekki að ráða við. Ef Njarðvík stal ekki boltanum og keyrðu í hraðaupphlaup þá voru þeir að ná að þvinga FSU í erfiðar sendingar sem ekki rötuðu rétta leið. Einu mennirnir með lífi í liði FSU voru Hlynur Hreinsson og Christopher Woods en þeir leiddu lið FSU í stigaskorun. Svo fór að Njarðvík jók forskotið sem þeir voru búnir að mynda í fyrsta leikhluta og var staðan 49-30 í hálfleik.

Atkvæðamestir hjá heimamönnum í hálfleik voru þeir Haukur Helgi 12 stig/ 5 stolnir, Jeremy Atkinsson 11 stig og Adam Eiður 11 stig þar af þrjár 3.stiga körfur.
Hjá gestunum voru eins og áður sagði þeir Hlynur Hreinsson og Christopher Woods þeir einnu með lífi en báðir komnir með 10 stig. Lið FSU var með 18 tapaða bolta í fyrri hálfleik sem segir nokkuð um hversu stífa vörn Njarðvík var að spila.

3 leikhluti var endurtekið efni og héldu heimamenn áfram að bæta við forskotið. Jeremy Atkinsson var drjúgur fyrir heimamenn en hann var duglegur að stela boltanum af gestunum. Eitt skiptið henti hann í stolin bolta og myndarlega troðslu í kjölfarið. FSU náði að setja nokkrar góðar körfur en þeir skoruðu 21 stig í leikhlutanum sem var hæsta stigaskor þeirra í einstaka leikhluta í leiknum. Ólafur Helgi lokaði leikhlutanum með góðri 3.stiga körfu fyrir heimamenn og kom þeim í 77-51 fyrir loka leikhlutann.

4 leikhluti var í raun formsatriði fyrir heimamenn að klára. Þeir gerðu það þó vel þar sem ungu strákarnir héldu uppteknum hætti og spiluðu flotta vörn á gestina sem voru með 30 tapaða bolta í kvöld en þar af stálu Njarðvík 24 sem segir mikið um hverslags vörn þeir spiluðu allan leikinn. Títt nefndur Cristopher Woods var sá eini sem eitthvað gerði sóknarlega um tíma hjá gestunum en hann setti í eina góða troðslu fyrir aftan bak. Þjálfarar Njarðvíkinga dreifðu mínútum leiksins vel en allir leikmenn liðsins fengu tíma á parketinu í kvöld. Svo fór að lokum að heimamenn kláruðu leikinn 100-65 en grunnurinn var settur strax í byrjun leiks og má segja að gestirnir í FSU hafi ekki átt séns á móti spræku liði Njarðvíkur sem greinilega nýttu hvíldina frá síðasta leik vel.
Atkvæðamestir hjá heimamönnum voru Jeremy Atkinsson 27 stig/ 10 stolnir/ 7 fráköst en hann var 14 af 14 af vítalínunni í kvöld, Adam Eiður 14 stig þar af fjórar 3.stiga körfur, Haukur Helgi 13 stig/ 5 stolnir/ 4 fráköst, Ólafur Helgi 13 stig, Logi G. 10 stig og ekki má sleppa Snjólfi Stefánssyni en hann var frákastahæstur heimamanna með 10 fráköst.

Hjá gestunum var Christopher Woods í sérflokki en hann var með 25 stig/ 17 fráköst, Hlynur H. 10 stig, Gunnar Ingi 9 stig/ 5 fráköst og Bjarni Geir 8 stig.

Tölfræði leiksins

Mynd og umfjöllun/ ÁÞÁ

Frétt frá karfan.is