Ungó framlengir samstarfinu með NjarðvíkPrenta

Körfubolti

Körfuknattleikdsdeild Njarðvíkur og Ungó hafa gert með sér nýjan samstarfs- og styrktarsamning fyrir komandi leiktímabil í körfunni. Það voru Kristín Örlygsdóttir formaður KKD UMFN og feðgarnir Valgeir Magnússon og Björn Ólafur Valgeirsson frá Ungó sem innsigliðu áframhaldandi samstarf.

Ungó skipar myndarlegan sess í hugum bæjarbúa enda glæsileg ísbúð og skyndibitastaður þar sem gott er að leggja leið sína. Valgeir eða Valli á Ungó var hinn kátasti þegar kvittað var undir nýja samninginn en hann lét vel til sín taka á blokkinni með yngri flokkum Njarðvíkur hér í eina tíð.

„Okkur finnst afar mikilvægt að taka þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi í sveitarfélaginu og vonumst alltaf til þess að liðin í bænum okkar láti vel fyrir sér finna í þeim deildum sem þau keppa,” sagði Valli og formaðurinn Kristín tók í ekki ósvipaðan streng. „Það er ekki sjálfsagt að fyrirtæki taki þátt í svona vegferð með íþróttafélögunum þegar rekstrarólina herðir að eins og um þessar mundir. Fyrir vikið er það alltaf jafn frábært að sjá Ungó og fleiri taka þátt í baráttunni með okkur,” sagði Kristín.

Ungó og Njarðvík hafa unnið saman til fjölda ára og hefur Ungó m.a. styrkt vel við bakið á sumaræfingum og körfuboltanámskeiðum á vegum deildarinnar.