Ungmennalið Paterna heimsækir Njarðvík í desemberPrenta

Körfubolti

Unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur hefur hafið vinasamstarf við Körfuknattleiksfélagið Paterna frá Spáni. Liðsmenn Paterna eru væntanlegir til Íslands í desembermánuði.

Njarðvíkingurinn Rannveig Guðmundsdóttir leikur með ungmennaliði Paterna og mun því ásamt liðsfélögum sínum frá Spáni heimsækja uppeldisklúbbinn hennar. 

Guðmundur Helgi Albertsson varaformaður unglingaráðs Njarðvíkur hefur haft veg og vanda að undirbúningi samstarfsins fyrir hönd Njarðvíkur. Guðmundur segir verkefnið fjölþætt en eitt af meginmarkmiðum þess sé að sporna við brottfalli ungra kvenna úr körfuknattleiksíþróttinni.

„Við hjá Njarðvík og líka í öðrum félögum höfum orðið vör við brottfall ungra kvenna úr boltanum og viljum sporna við því. Ég hef persónulega verið í miklum samskiptum við Paterna vegna veru dóttur minnar þar og fannst það góð hugmynd að koma á samstarfi milli klúbbanna,“ sagði Guðmundur en aðalmarkmiðið er að deila reynslu sem og að mynda tengingar við nám og spilamennsku ungmenna erlendis.

„Unglingaráð félagsins telur það mikilvægt að hafa spennandi verkefni á þessu stigi sem er stúknaflokkur og það var ánægjulegt að sjá hve vel forsvarsmenn Paterna tóku í verkefnið,“ sagði Guðmundur en því fer fjarri að um þessa einu heimsókn sé að ræða.

„Hér er á ferðinni langtímasamstarf klúbbanna og því mun stúlknaflokkur Njarðvíkur heimsækja Paterna á Spáni á næstu leiktíð og þannig munu félögin skiptast á heimsóknunum. Guðmundur og unglingaráð hafa staðið að undirbúningi þessa stóra verkefnis og það hefur verið einstaklega gaman að sjá hvað nærsamfélagið okkar hefur tekið vel í samstarfsbeiðnir og allir boðnir og búnir til þess að hjálpa til,“ sagði Logi Gunnarsson yfirþjálfari yngri flokka Njarðvíkur.

Sjálft verkefnið hverfist um sameiginlegar æfingar og svo munu stúlknaflokkur Njarðvíkur og ungmennalið Paterna mætast í tveimur æfingaleikjum. Við á heimasíðu UMFN.is munum greina nánar frá verkefninu þegar nær dregur.

Nánari upplýsingar um verkefnið má fá hjá unglingarad@umfn.is

Mynd/ Stúlknaflokkur Njarðvíkur tímabilið 2021-2022.