Tvö stig í Grindavík og toppslagur í deiglunniPrenta

Körfubolti

Njarðvík vann í kvöld sterkan útisigur á Grindavík í Subwaydeild kvenna. Lokatölur í HS Orku höllinni voru 58-67 og ljónynjur því búnar að vinna þrjá fyrstu deildarleiki sína á tímabilinu. Aliyah Collier var stigahæst í kvöld með 25 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar og heldur áfram að daðra við þrennurnar.

Okkar konur leiddu 15-19 eftir fyrsta leikhluta en Grindvíkingar voru yfir 34-32 í hálfleik. Minna um stigaskorið en meira um varnarleikinn. Í þriðja leikhluta náðu okkar konur aftur yfirhöndinni og leiddu 48-49 að honum loknum en í þeim fjórða átti Njarðvík einfaldlega meira á tanknum og vörnin hélt áfram að gera Grindavík lífið leitt og því tvö stig sem koma heim í Njarðvík í kvöld. Lokatölur 58-67 eins og áður segir.

Collier heldur áfram að láta til sín taka en næstar henni voru Lavina og Diane báðar með 15 stig og 6 fráköst og þá var Helena með 7 stig. Eftir þrjá leiki er Njarðvík það lið sem er að fá fæst stig á sig í deildinni eða 59 að meðaltali í leik.

Næst á dagskrá er toppslagur gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Vals sem mæta í Ljónagryfjuna þann 20. október næstkomandi. Þá fjölmennum við á pallana enda verður fjör í húsinu, hver veit nema það verði nokkrir skemmtilegir leikir í gangi fyrir áhorfendur!

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Viðtal við Vilborgu á Karfan.is

Spjölluðum stutt við Kamillu eftir leik