Aftur tap á heimavelliPrenta

Fótbolti
Ekki tókst okkur Njarðvíkingum að reka af okkur sliðruorðið á heimavelli í kvöld gegn grönnum okkar úr Víði í Garði. Lokatölur voru 1-3 og fóru því gestirnir heim með þrjú dýrmæt stig. Leikurinn í kvöld fór fremur rólega af stað, en Víðismenn virkuðu tilbúnari í þennan grannaslag og voru miklu þéttari og ákveðnari í sínum aðgerðum. Njarðvíkingar minntu samt á sig annað slagið, en sýndu samt ekkert sem fékk mann til þess að trúa að þeir væru í toppsætinu. Það voru því Garðbúar sem gerðu fyrsta mark leiksins á 35 mín. Grænir hresstust aðeins við þetta og var eins og þeir hefðu áttað sig á að leikurinn væri hafinn fyrir löngu og áttu nokkur upphlaup. Úr einu þeirra gerði Atli Ottesen laglegt mark á 39 mín eftir góða sókn okkar og 1-1 var því staðan í hálfleik.
Í seinnihálfleik reyndu bæði lið að gera atlögu að öðru marki og töluvert jafnræði var með liðunum, en svo virtist sem gestirnir væru töluvert meira hungraðir í sigur. Þegar svo allt stefndi í „stórmeistara“ jafntefli, sem heimamenn virtust vera búnir að sætta sig við, gerðu Víðsimenn út um leikinn með tveimur mörkum í lokin. Það fyrra á 89 mín og það seinna þegar komið var fram yfir 2 mín af venjulegan leiktíma þegar okkar menn lögðu allt kapp á að jafna leikinn. Lokatölur því 1-3 tap, sem verður að teljast afar svekkjandi og sannarlega úrlausnarverkefni fyrir bæði þjálfara og leikmenn að finna út hversvegna liðið nær ekki sama neista á heimavelli eins og á erfiðum útivöllum.

Ekki vantaði áhorfendur í kvöld og því leiðinlegt að ná ekki að fylgja eftir frábærri byrjun í sumar með góðum leikjum á heimavelli. En mótið er langt og því enn möguleiki á að bæta úr því. Næsti leikur okkar er á þriðjudagskvöldið þegar við heimsækjum  KV á KR völlinn.

Myndirnar eru uúr leiknum í kvöld.

Leikskýrslan Njarðvík – Víðir

IMG_8705    IMG_8753

IMG_8767    IMG_8779