Stór og öruggur sigur gegn HamriPrenta

Körfubolti

Njarðvík vann í dag stóran og öruggan sigur á Hamri í 1. deild kvenna og skaust þar með upp í 2. sæti deildarinnar við hlið Keflavíkur b en á toppnum trónir Tindastóll sem leikið hefur einum leik meira en bæði Reykjanesbæjarliðin í deildinni. Lokatölur í Njarðtaks-gryfjunni voru 83-45 þar sem heimakonur voru einráðar í síðari hálfleik.

Gestirnir úr Hamri leiddu 0-6 eftir fjögurra mínútna leik en þá tók Ragnar leikhlé fyrir Njarðvíkinga. Heimakonur komu sprækar úr leikhléinu og skoruðu sjö stig í röð og snögglega var staðan orðin 12-8 og Erna Freydís Traustadóttir með 7 af fyrstu 12 stigum Njarðvíkur í leiknum. Eftir fjórar stigalausar mínútur í upphafi leiks gerðu Njarðvíkingar 20 stig á næstu 6 mínútum og leiddu 20-13 að loknum fyrsta leikhluta.

Strax aftur í upphafi annars leikhluta var sama bras á Njarðvíkurliðinu, einhver sóknartregða og liðið með öllu stigalaust fyrstu fjórar mínútur leikhlutans, staðan 20-15 þegar 6 mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Vilborg Jónsdóttir braut loks ísinn með gegnumbroti og kom Njarðvík í 22-15. Reyndar varð annar leikhluti ein allsherjar múrsteinahleðsla á báða bóga, ekki fögur tölfræðiskýrslan í hálfleik með tilliti til skotnýtingar liðanna en staðan 33-20 í hálfleik.

Vilborg Jónsdóttir var með 12 stig í hálfleik í Njarðvíkurliðinu og Jóhanna Lilja Pálsdóttir 9.

Strax á fyrstu mínútum þriðja leikhluta kom Njarðvík muninum upp í 20 stig, staðan 40-20. Jóhanna Lilja skellti svo niður fimmta þristinum sínum í leiknum þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og staðan 51-26 Njarðvík í vil. Varnarleikurinn var gestunum einfaldlega of þéttur og þær áttu ekki frekara erindi í Njarðtaks-gryfjuna þennan sunnudaginn. Staðan að loknum þriðja leikhluta 57-35 Njarðvík í vil og eftirleikurinn ekki í hættu.

Í lokaleikhlutanum jókst munurinn, gestunum gekk jafn illa að skora í þeim fjórða líkt og í öðrum leikhluta en varnarmúr Njarðvíkurliðsins hafði einfaldlega verið þeim of mikið verk, lokatölur 83-45 þar sem Vilborg Jónsdóttir var með 26 stig og 9 stoðsendingar, Jóhanna Lilja Pálsdóttir bætti við 20 stigum og 8 fráköstum, Erna Freydís Traustadóttir bætti svo við 13 stigum og Eva María Lúðvíksdóttir kom með 11 stig inn af bekknum.

Tölfræði leiksins
Myndasafn úr leiknum (Jón Björn)