Spánverjar vaktir með njarðvísku bakkelsiPrenta

Körfubolti

Vart er til sá Njarðvíkingur sem ekki kannast við hið margfræga Valgeirsbakarí. Þó eigendur þess hafi falið nýjum rekstraraðilum húsnæðið og starfsemina þá hafa þau Valgeir Þorláksson, Magdalena Olsen og Ásmundur Valgeirsson engu gleymt. Fjölskyldan gaf sér tíma til þess að líta upp úr spennandi verkefni við „Bakarablokkina” til þess að aðstoða barna- og unglingaráð körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur við mótttöku spænska liðsins Paterna.

Sá er þetta ritar var boðinn velkominn á heimili fjölskyldunnar við kunnuglegt kruðerí sem lýsti sér í ljúffengum smákökum beint úr ofninum að sjálfsögðu.

Eins og áður hefur verið greint frá er í farvatninu spennandi samstarf við ungmennaliðið Paterna á Spáni. Liðsmenn Paterna og fylgdarlið eru væntanleg til landsins í byrjun desembermánaðar og þau Ásmundur, Valgeir og Magdalena munu sjá um morgunverð gestanna á meðan dvöl þeirra stendur í Njarðvík.

„Við ætlum að leyfa þeim að kynnast njarðvísku bakkelsi,” sagði Ásmundur léttur í lundu við umfn.is „Við erum félagsmenn og tókum þetta verkefni að okkur ekki síður okkur sjálfum til skemmtunar. Við munum sjá um morgunmatinn þegar við fáum þessa góðu gesti en þegar við vorum í bakarísrekstrinum var brauðið okkar aðaláhersla og þá oftar en ekki með osti, skinku og eggjum,” sagði Ásmundur sællar minningar. Það verður því gamli bakarísblærinn yfir vötnum þegar Paterna mætir í heimsókn.

„Þetta verður skemmtilegt og gefur okkur færi á því að líta aðeins upp úr „Bakarablokkinni” en íbúðir þar fara brátt í útleigu,” sagði Ásmundur en fjölskyldan hefur ekki setið auðum höndum síðan þau létu Valgeirsbakarí frá sér. „Við erum bara vön því að vinna og því varð þetta næsta verkefni okkar,” sagði Ásmundur en Bakarablokkin ætti að vera mörgum kunnari sem gamla Olsen vélsmiðjan við Njarðvíkurhöfn. Fjölskyldan hefur ráðist í miklar endurbætur á húsinu og íbúðir þar tilbúnar von bráðar.

En hvernig kom það til að fjölskyldan hefði áhuga á að liðsinna við að taka á móti vinaliði Njarðvíkur frá Paterna? „Þetta kom til bara nokkuð óvænt og óvart. Ég fór til fundar með unglingaráðinu þar sem þetta spennandi verkefni með Paterna var kynnt fyrir mér. Ég sá strax að við gætum vel hjálpað með atriði eins og morgunmatinn. Við mamma og pabbi höfum öll gaman af því að elda og pabbi hefur vart stoppað við að baka brauð og kökur, ef eitthvað er hefur það bara aukist síðustu misseri.” Aðspurður hvort hinn eini sanni „Valli bakari” væri þá kannski að taka skóna af hillunni og halda aftur út á markað hló Ásmundur og sagðist ekki gefa neitt uppi.

En hvernig líst þér á þetta nýja erlenda samstarf Njarðvíkur og baráttu klúbbsins gegn brottfalli ungmenna úr körfuboltanum? „Þetta er sniðugt, verkefnið er spennandi og ég man sjálfur að ég hætti í íþróttum 16 ára gamall. En að freista þess að halda ugnmennum lengur við efnið er mikilvægt fyrir heilsu þeirra og líðan og því mikil hvatning fyrir okkur að taka þátt á þessum forsendum. Með þessu náum við einnig að gefa aftur til samfélagsins,” sagði Ásmundur að lokum.

Verkefnið sjálft hefst 3. desember þegar Paterna fjölmennir til landsins og stendur það allt til 10. desember. Morgunmaturinn verður í Ljónagryfjunni og mun stúlknalið Paterna t.d. leika tvo æfingaleiki við stúlknaflokk Njarðvíkur á meðan heimsókninni stendur. Í stúlknaflokki eru leikmenn á aldrinum 16-18 ára. Þá verða einnig kunnir ferðamannastaðir á Suðurnesjum heimsóttir, fyrirlestrar, æfingar og margt fleira.

Mynd/ JBÓ: Ásmundur Valgeirsson mun hafa í mörg horn að líta í byrjun desember þegar liðsmenn Paterna mæta til Íslands. Heimasíða UMFN náði Ásmundi þar sem hann hefur marga tónana framkallað. Þess má geta að hann samdi t.d. Ljósanæturlagið „Velkomin á Ljósanótt.”

Tengt efni: Ungmennalið Paterna heimsækir Njarðvík í desember