Skagamönnum skelltPrenta

Fótbolti

Njarðvíkingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu lið ÍA í Reykjaneshöllinni í kvöld með þremur mörkum gegn tveimur, en leikurinn var liður í Lengjubikarkeppni KSÍ.

Lið heimamanna mætti ákveðið til leiks og baru alls enga virðingu fyri vel mönnuðu skagaliði. það kom því alls ekkert á óvart að Theodór Guðni Halldórsson náði forystunni fyrir okkur eftir um hálftíma leik. Skagamenn, sem virtust ekki ná að leika eins og þeir hefðu óskað sér í upphafi leiks, enda Njarðvíkingar mjög skipulagðir og beittu öflugum skyndisóknum. En þeir fornfrægu fóru að komast betur inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn en voru ekki mjög ógnandi, fyrir utan eitt stangarskot og staðan því 1 – 0 í háfleik.

Skagamenn komu mjög einbeittir til leiks eftir hlé og náðu að jafna þegar um 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Næstu mínútur stjórnuðu þeir leiknum og bjuggust því flestir við að þeir myndu ná að reka heimönnum náðarhöggið innan skamms. En svo var nú aldeilis ekki. Bergþór Smárason gerði glæsilegt mark á 71 mín með skoti utan vítateigs, eftir að hafa komið inná sem varamaður skömmu áður og staðan allt í einu orðin 2-1. Skagamenn voru sem slegnir eftir þetta, á meðan Njarðvíkingar efldust og skiptust liðin á að sækja næstu mínúturnar. En þegar um 10 mínútur voru eftir jöfnuðu þeir gulklæddu eftir aukaspyrnu og darraðadans í vítateig heimamanna.

Akurnesingar lögðu síðan allt kapp á að knýja fram sigur á lokamínútunum og skall oft hurð nærri hælum við mark Njarðvíkur, en uppskáru ekki erindi erfiðis síns. Njarðvíkurvörnin vel á verði og Brynjar hinn ungi markvörður, öryggið uppmálað.
Allflestir voru því farnir að sættast á 2 – 2 jafntefli, sem hefðu getað talist sanngjörn úrslit. En Arnór Björnsson var ekki á sama máli. Hann, sem hafði komið inná sem varamaður í síðari hálfleik, náði að stinga sér inn fyrir vörnina og gera sigurmark Njarðvíkinga í uppbótartíma. Lokatölur því 3-2 og glæsilegur sigur á ÍA því staðreynd. Sá fyrsti í sögu Njarðvíkinga á liði Skagamanna!

Næsti leikur okkar er gegn Víking Rvík eftir viku í Reykjaneshöll.

Leikskýrslan Njarðvík – ÍA

Lengjubikarinn A deild riðill 1

Mynd/ Markaskorar kvöldsins Theodór Guðni, Arnór og Bergþór Ingi.