Reykjavíkurveldin næstu andstæðingarPrenta

Körfubolti

Njarðvíkurliðin mæta ÍR og KR núna í vikunni, Reykjavíkurreisa þeirra hefst annað kvöld þegar kvennaliðið leikur gegn ÍR og á fimmtudag heldur karlalið Njarðvíkur svo inn í vesturbæ og mætir KR. Það verður því græn samgöngulína á Reykjanesbrautinni þessa vikuna því við ætlum að mæta með læti í stúkurnar!

ÍR-Njarðvík: 19. nóvember kl. 19:15
Skammt stórra högga á milli hjá kvennaliði Njarðvíkur sem skellti Hamri í Njarðtaks-gryfjunni síðasta sunnudag en grænar fá dagshvíld og svo beint í Hertz-hellinn þar sem leikið er gegn ÍR. Eftir helgina eru okkar konur í 2.-3. sæti með Keflavík b en bæði lið eru með 10 stig og Tindastóll á toppnum með 12. ÍR situr í 5. sæti deildarinnar með 6 stig svo það er von á góðum slag í Hertz-Hellinum á þriðjudagskvöld og hvetjum við alla Njarðvíkinga til að mæta og hvetja kvennaliðið til sigurs.

KR-Njarðvík: 21. nóvember kl. 19:15
Eftir risavaxinn sigur á Þór og öflugan sigur KR gegn Keflavík í síðustu umferð mætast þessir fornu fjendur í DHL-Höllinni á fimmtudagskvöld. KR í 3. sæti um þessar mundir með 10 stig en Ljónin í 8. sæti með 6 stig og þessi tvö stig sem verða í boði á fimmtudagskvöld eru rándýr. Það lætur enginn alvöru Njarðvíkingur sig vanta – allir um borð!