Rafn Markús og Snorri Már hætta þjálfun meistaraflokksPrenta

Fótbolti

Rafn Markús Vilbergsson þjálfari og Snorri Már Jónsson aðstoðarþjálfari hafa sagt upp samning sínum sem þjálfarar meistaraflokks karla hjá Njarðvík eftir 3 ár í starfi hjá félaginu.

Rafn Markús hefur verið þjálfari meistaraflokks síðan í ágúst 2016 þar sem hann stýrði liðinu í síðustu umferðum Íslandsmótsins það ár. Snorri Már gekk til liðs við þjálfarateymið fyrir tímabilið 2017 og saman stýrðu þeir liðinu til sigurs í 2. deild sumarið 2017. Undir þeirra stjórn náði liðið flottum árangri árið 2018 þegar það hafnaði í 6. sæti Inkasso deildarinnar. Árið 2019 komst liðið í 8. liða úrslit bikarkeppninnar sem er besti árangur félagsins í bikarkeppni KSÍ.

Rafn Markús starfaði sem yngri flokka þjálfari hjá deildinni frá árinu 2006 til 2013 ásamt því að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks árið 2011 og leikmaður í meistaraflokki um árabil. Snorri Már var áður leikmaður með meistaraflokki Njarðvík og fyrirliði liðsins til margra ára ásamt því að hafa þjálfað yngri flokka hjá félaginu.

Stjórn Knattspyrnudeildar Njarðvíkur þakkar þeim Rafni Markúsi og Snorra Má fyrir samstarfið á síðustu árum og innlegg þeirra til deildarinnar og óskar þeim góðs gengis.

Stjórn knattspyrnudeildarinnar hefur hafið vinnu við að leita að nýjum þjálfara og vonast er til að þau mál skýrist á allra næstu dögum.

Orðsending frá Rafni Markúsi Vilbergssyni

Sælir Njarðvíkingar,

Við Snorri Már aðstoðarþjálfari tilkynntum stjórn knattspyrnudeildar Njarðvíkur í gær uppsögn á samningum okkar við félagið um áframhaldandi þjálfun. Eftir rúmlega þrjú ár sem þjálfari meistaraflokks Njarðvíkur skil ég sáttur og þakklátur fyrir að hafa verið hluti af þessari sterku liðsheild sem Njarðvíkurliðið hefur fyrst og fremst staðið fyrir. Hluti af hópi sem hefur náð besta árangri Njarðvíkur í deildarkeppni þegar við enduðum í 6. sæti í Inkasso-deildinni í fyrra eftir að sigrað 2. deildina árið á undan og í sumar þegar við komust í átta liða úrslit í Mjólkurbikarnum.

Með auknum árangri hefur áhugi Njarðvíkinga aukist jafnt og þétt á að mæta á völlinn. Það var oft vel mætt í stúkuna en aldrei fleiri en þegar yfir 1000 manns fylltu völlinn í nágrannaslag gegn Keflavik í sumar. Félagið hefur verið heppið að geta byggt á stórum kjarna leikmanna sem hafa verið hjá félaginu í mörg ár og auk þess hafa margir flottir leikmenn og karakterar komið og myndað skemmtilegan hóp með sterk liðseinkenni. Þessum hópi þakka ég fyrir góðan tíma saman. Öllum þeim sem hafa unnið með mér í kringum liðið þakka ég fyrir og þá sérstaklega Snorra Má, Sævari Júll og Gunna Ástráðs sem hafa lagt á sig mikla vinnu í kringum liðið.

Mikilvægt er fyrir Njarðvík sem félag að halda rétt á spöðunum á næstu árum þar sem fjöldi iðkenda í félaginu hefur aukist á síðustu árum og þurfa allir sem vinna að félaginu að vera tilbúnir til að vinna markvisst með hag félagsins að leiðarljósi.

Kveðja, Rafn Markús Vilbergsson