Njarðvíkingar aftur af stað eftir stutt stoppPrenta

Körfubolti

Meistaraflokkar karla og kvenna í Njarðvík fara aftur af stað í Subwaydeildinni á næstu dögum eftir stutt hlé. Kvennaliðið fór í hlé vegna landsleikjaglugga og þá var hliðrað til karlamegin þar sem þjálfari okkar Benedikt Guðmundsson er einnig þjálfari A-landsliðs karla. Annað kvöld verður látið sverfa til stáls að nýju þegar nýliðar Breiðabliks í Subway-deild karla mæta í Ljónagryfjuna og hefst leikurinn kl. 18:15. Sem liður í kvendómaranámskeiði á vegum KKÍ þá verður Andrada Monika Csender einn þriggja dómara leiksins. Andrada er stödd hér á landi en hún er leiðbandi FIBA og margverðlaunaður alþjóðlegur dómari. Nánar hér.

Eftir sex umferðir í deildinni er Njarðvík í 7. sæti með 3 sigra og 3 tapleiki en Blikar sitja í 9. sæti með 2 stig en hafa átt þónokkra ansi athyglisverða leiki á tímabilinu til þessa.

Kvennalið Njarðvíkur tekur svo á móti Haukum í Ljónagryfjunni sunnudaginn 21. nóvember næstkomandi kl. 18:15. Haukar hafa aðeins leikið fjóra deildarleiki til þessa og eru í 5. sæti með 6 stig en Haukar eru einnig að spila í EuroCup sem skýrir færri leiki þeirra en annarra liða í deildinni til þessa. Okkar konur í Njarðvík hinsvegar verma toppsætið með 12 stig og fyrir hlé unnu þær frækinn 77-70 sigur á Keflavík í Ljónagryfjunni.

Við hvetjum Njarðvíkinga til að mæta á völlinn og eiga góða stund í Ljónagryfjunni en á næstu leikjum verður nóg við að vera, aldrei að vita nema áhorfendur verði kallaðir út á völl þar sem þeir geta freistað þess að vinna sér inn skemmtileg verðlaun. Sjáumst í Ljónagryfjunni!

#ÁframNjarðvík

Næstu leikir:

Subwaydeild karla:

Njarðvík-Breiðablik kl. 18:15 – fimmtudagur 18. nóvember

Subwaydeild kvenna:
Njarðvík-Haukar kl. 18:15 – sunnudagur 21. nóvember

ATH Breyttar samkomutakmarkanir