Njarðvík-Paterna í Ljónagryfjunni í kvöldPrenta

Körfubolti

Síðustu daga hefur heimsókn vinaliðs okkar Paterna staðið yfir og margt skemmtilegt á daga þeirra drifið hér í sinni fyrstu heimsókn. Í kvöld er komið að æfingaleik milli stúlknaliðs Paterna og stúlknaflokks Njarðvíkur sem hafa undanfarið æft saman og náð að kynnast vel.

Enginn verður óbarinn biskup eins og segir í málshættinum en liðsmenn Paterna fengu farangurinn sinn ekki á sama tíma og liðið lenti hér á landi. Smá upphafshönkrar en síðan þá hefur heldur betur verið myndarleg dagskrá.

Feðgarnir Ásmundur og Valgeir hafa undanfarið reitt fram kjarngóðan morgunverð fyrir hópinn sem einnig hefur heimsótt Perluna og Fly over Iceland sem lagðist einkar vel í hópinn. Múlakaffi bauð einnig upp á góðan málsverð fyrir Paterna og þá voru móttökurnar höfðinglegar í Blue Lagoon og ljóst að hópnum þótti mikið til þeirrar heimsóknar koma.

Gestir okkar frá Paterna hafa einnig stutt við meistaraflokk kvenna enda mættu þær á pallana á Hlíðarenda og sáu nýliðana í Njarðvík leggja Íslandsmeistara Vals að velli í Subwaydeild kvenna og í gærkvöldi létu þær vel í sér heyra þegar Reykjanesbæjarrimma Njarðvíkur og Keflavíkur fór fram í stúlknaflokki. Keflvíkingar höfðu þar betur í hörkuleik sem endaði 50-53.

Leikur Njarðvíkur og Paterna fer fram í Ljónagryfjunni í kvöld og hefst kl. 20.15. Þeir sem ekki eiga heimangengt geta horft á leikinn í beinni á Njarðvík TV.

Unglingaráð körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem hafa liðsinnt við verkefnið en þar koma margar hendur að verki og vel haldið utan um gestina okkar frá Spáni.