Njarðvík og Cibona Zagreb: Evrópuævintýri NjarðvíkingaPrenta

UMFN

Árið 1991 mættust Njarðvík og Cibona Zagreb í Evrópukeppninni í körfuknattleik. Þjálfari Njarðvíkurliðsins á þessum tíma var Friðrik Ingi Rúnarsson en þegar Cibona mætti til Íslands var liðið fimmfaldur Evrópumeistari en stríð heimafyrir gerði það að verkum að báðir leikirnir voru spilaðir á Íslandi. Gestirnir frá Cibona höfðu nokkra yfirburði í fyrri leiknum 76-111 en í þeim síðari náðu okkar menn að halda aðeins betur aftur af stórliðinu en lokatölur þó 74-97 fyrir Cibona.

UMFN.is hafði samband við Friðrik Inga á dögunum en hann fór yfir hve stórt og sterkt lið Cibona var þegar það kom til landsins. Jón Sigurðsson ráðherra var á meðal heiðursgesta við leikinn í Njarðvík og tók á móti bænaskjali fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar úr höndum liðsmanna Cibona Zagreb þar sem m.a. var biðlað til íslensku þjóðarinnar að liðsinna Króötum á vegferð sinni til sjálfstæðis.

Nýverið kom leikurinn sem fram fór í Njarðvík í heild sinni inn á Youtube en það var Friðrik Ingi sem kom honum fyrir þar. Hér má horfa á leikinn í heild sinni: https://www.youtube.com/watch?v=iQLhQhdneFs

Hér að neðan gefur að líta frásögn Friðriks Inga um hið stórbrotna lið Cibona Zagreb:

Cibona Zagreb er í sögulegu samhengi eitt af stóru félögum fyrrum Júgóslavíu, síðar Króatíu. Félagið hefur unnið fjölmarga titla heima fyrir sem og ýmsar Evrópukeppnir. Þegar Cibona kom til Íslands til að etja kappi við Njarðvík í Evrópukeppninni haustið 1991 geysaði stríð á Balkanskaganum og því gat annar leikur liðanna ekki farið fram í Zagreb. Samið var um að báðir leikirnir færu fram á Íslandi. Hann vakti m.a. heimsathygli borðinn sem var strengdur á rimlana í Ljónagryfjunni á bakvið varamannabekk Cibona þar sem stóð: Stop The War In Croatia.

Í kvikmyndinni Once Were Brothers sem fjallar um þegar Vlade Divac leikmaður Júgóslavíu fer til Króatíu til að hitta fjölskyldu Drazen Petrovic eftir að hann féll frá, en þeir voru meira en samherjar upp öll yngri landslið Júgóslavíu, þeir voru herbergisfélagar og leiðtogar og voru til staðar fyrir hvorn annan þegar í NBA var komið. Nánast á einni nóttu breyttist allt, fyrrum samherjar töluðust ekki við.

Í Aþenu á EM 1995 þegar Króatía vann til bronsverðlauna stukku leikmenn og þjálfarar af verðlaunapallinum rétt áður en Evrópumeistarar Júgóslava voru tilkynntir sigurvegarar. Ástandið var rafmagnað. Körfuboltaheimurinn skalf og titraði því á sama tíma voru breytingar hjá öðrum þjóðum líka, Sovétríkin voru að skiptast upp aftur og Litháen var að spila aftur sem sjálfstæð þjóð á EM 1995. Þegar þarna var komið sögu hafði Cibona verið mjög sigursælt og á árunum 1980-1988 hafði félagið unnið 14 stóra titla, þrír Júgóslavíumeistaratitlar, sjö bikarmeistaratitlar, tveir Evrópumeistaratitlar (Meistaraliða) og tveir Evrópumeistaratitlar félagsliða. Vegna stríðsástandsins þurfti Cibona Zagreb að leika heimaleiki sína á Spáni keppnistímabilin 1991-1992 og 1992-1993.

Margir frábærir leikmenn léku með félaginu á árum áður og þar má m.a. nefna Drazen Petrovic heitinn og Kresimir Cosic sem var valinn af Portland Trailblazers í NBA nýliðavalinu árið 1972 en hann ákvað að halda áfram námi hjá Brigham Young háskólanum en hann átti eitt ár eftir af náminu. 1973 var hann svo aftur valinn í nýliðavali NBA og nú af Los Angeles Lakers en hann hafði lítinn áhuga á því að spila í þeirri deild og fór af loknu námi heim til Júgóslavíu.

Þjálfarateymi Cibona Zagreb sem kom til Njarðvíkur var ekki af verri endanum en aðalþjálfarinn var Mirko Novosel sem hefur verið vígður inn í Naismith Memorial Basketball Hall of Fame og FIBA Hall of Fame. Undir stjórn Mirko Novosel vann Cibona Zagreb til fjölmargra titla heima fyrir og í Evrópu. Hann þjálfaði einnig landslið Júgóslavíu til silfurverðlauna á HM 1974, silfurverðlauna á Ólympíuleikum í Montreal 1976 og bronsverðlauna á Olympíuleikunum í Los Angeles 1984. Árið 1993 stýrði hann landsliði Króata til bronsverðlauna á EM.

Aðstoðarþjálfari Cibona í þessum leikjum við Njarðvík var Alexander Petrovic sem er eldri bróðir Drazen Petrovic heitins. Hann var einnig aðstoðarþjálfari Króatíu á árunum 1990-1995 og var hluti af landsliði Króatíu sem vann til silfurverðlauna á Olympíuleikunum í Barcelona 1992. Það var aðeins Draumalið Bandaríkjanna, líklegast besta lið sögunnar, sem var ofar.

Þess má til gamans geta að í forkeppninni fyrir Ólympíuleikana 1992 var Ísland með Króatíu í riðli sem fór fram í Murcia á Spáni. Þar voru þeir saman, Petrovic bræður, Aleksandar og Drazen, annar á bekknum og hinn á vellinum. Novosel þjálfaði bæði Petrovic og Cosic.

Friðrik Ingi Rúnarsson

Hér eru liðin sem komust í 16 liða úrslit í keppninni: