Logi og Maciek framlengja við NjarðvíkPrenta

Körfubolti

Nýverið framlengdu þeir Logi Gunnarsson og Maciek Baginski samningum sínum við Njarðvík. Stjórn Körfuknattleiksdeildarinnar er hæstánægð með áframhaldandi veru þeirra kappa í Ljónagryfjunni enda mikilvæg púsl í undirbúningi fyrir næstu leiktíð.

Maciek er 24 ára en hann var með 11,1 stig, 3,1 frákast og 1,7 stoðsendingu að meðaltali í leik á tímabilinu en Logi sem verður 38 ára gamall síðar á þessu ári var með 8,5 stig, 2 fráköst og 1,6 stoðsendingu á tímabilinu.

Eins og þegar hefur verið greint frá framlengdi Jón Arnór Sverrisson samningi sínum við félagið á dögunum svo óhætt er að segja að vinna við undirbúning fyrir næsta tímabil sé komin á fullt í Njarðvík.

„Það er ánægjulegt fyrir okkur í þjálfarateyminu að menn séu strax farnir að horfa til næstu leiktíðar. Margt gott átti sér stað hjá Njarðvíkurliðinu á tímabilinu en auðvitað voru það vonbrigði að vinna ekki bikarinn og detta svo út í 8-liða úrslitum. Maður finnur það á mönnum að þá langar til þess að gera enn betur á næstu leiktíð og því mikilvægt að okkar sterkustu menn á borð við Jón, Loga og Maciek séu búnir að framlengja við félagið. Á næstu misserum verður frekari tíðinda að vænta af okkur,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari liðsins.

Mynd/ Kristín Örlygsdóttir nýr meðlimur stjórnar KKD UMFN ásamt þeim Maciek og Loga við undirritun samninganna.