Líflegur dagur og hápunkturinn fjórði leikur Njarðvíkur og FjölnisPrenta

Körfubolti

Í kvöld fer fram fjórði undanúrslitaleikur Njarðvíkur og Fjölnis í Subwaydeild kvenna. Okkar konur í Njarðvík leiða einvígið 2-1 eftir frækinn útisigur í Dalhúsum í síðasta leik. Leikurinn hefst kl. 20:15 í Ljónagryfjunni í kvöld. Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur sett saman risavaxinn og skemmtilegan dag svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Við hefjum leik á páskaeggjaleit fyrir yngstu meðlimi körfuboltafjölskyldunnar (erum að miða við c.a. 2. bekk og yngri). Páskaeggjaleitin hefst í skrúðgarðinum í Njarðvík þar sem eggjaleitarar eru beðnir um að safnast saman við aparóluna laust fyrir kl. 16.30 í dag. Sjá viðburð.

Því næst verður unglingaráð körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur með körfuboltabingó í Njarðvíkurskóla sem hefst kl. 18:45 og að því loknu munu allir bingóspilarar fara saman yfir í Ljónagryfjuna og mynda skjaldborg utan um völlinn á meðan Njarðvíkurliðið hitar upp fyrir leik!

Stjórn körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur ætlar að bjóða öllum iðkendum frítt á leikinn og foreldrar/forráðamenn iðkenda fá 2 fyrir 1 aðgang á leikinn. Tilboðið má finna á Stubbur-app.

Með bingóinu er boðið upp á tilboð, 1000 kr. fyrir bingóspjald, pizzusneið, drykk og súkkulaði. Mætum og styðjum okkar konur til sigurs og eigum öll saman góðan dag með Ungmennafélagi Njarðvíkur.

Áfram Njarðvík!