Líflegt samstarf hjá Smass og NjarðvíkPrenta

Körfubolti

Hamborgarasérfræðingarnir hjá Smass eru mættir til Reykjanesbæjar og hafa þegar gert nýjan og skemmtilegan samstarfssamningi við Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur.

Glöggir gætu hafa tekið eftir nýja samstarfinu en á dögunum voru tveir skotvissir aðilar sem unnu sér inn glæsilega hamborgaraveislu frá Smass á heimaleik í Ljónagryfjunni.

Smassborgari er nelgdur niður á pönnuna eins og segir á smass.is. „American Cheese” bráðnar á kjötinu, dillgúrkur og gott kartöflubrauð ásamt fullkominni hamborgarasósu frá vesturströnd Bandaríkjanna. Félagar okkar á Smass bjóða upp á pantanir á netinu og sitthvað fleira gott á staðnum þeirra við Fitjar.

Það var Kristín Örlygsdóttir formaður KKD UMFN og Egill Ólafsson frá Smass sem nýverið undirrituðu samstarfssamninginn en þegar hafa meistaraflokkar Njarðvíkur bragðað á gæðunum eins og myndirnar hér að neðan sýna glögglega.

Þess má geta að næsti SMASS-leikur í Njarðvík er viðureign Njarðvíkur og ÍR í Subwaydeild karla. Ef Njarðvík nær 100 stigum þann leikinn þá er aftur í boði frír SMASS-ostborgari daginn eftir fyrir alla þá sem áttu miða á leikinn!