Leikdagur: Njarðvík-KR hefst í kvöld!Prenta

Körfubolti

Bolti, burger, bolir, beint og margt fleira

Úrslitakeppnin hefst í kvöld hjá karlaliði Njarðvíkur þegar KR mætir í heimsókn í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Subwaydeildar karla. Leikurinn hefst kl. 18:15 í Ljónagryfjunni en hann verður ekki í beinni á Stöð 2 Sport.

Þeir sem eiga ekki heimangengt á völlinn þurfa þó ekki að örvænta því leikurinn verður í beinni útsendingu hér hjá Njarðvík TV gegn vægu gjaldi: Útsendingarhlekkur

Fyrr í dag birtum við snarpt yfirlit frá Örvari Kristjáns um einvígi liðanna í úrslitakeppninni og flestum er það ljóst að jafnan eru þessar rimmur risanna hreinræktuð skemmtun. Um er að ræða sigursælustu lið landsins í karlaboltanum, miklar hefðir og sögu og stuðningsmenn sem jafnan hafa sett ógleymanlegan svip á einvígin.

Hungraðir geta mætt frá kl. 17 í dag upp í Ljónagryfju því grillin verða tendruð og gómsætir borgarar á boðstólum. Við viljum minna á eftirfarandi: Miðaverð fyrir fullorðna er kr. 2500 og 6-15 ára er 1000 kr. Árskort eru ekki gild í úrslitakeppninni en miðahafar í Grænu ljónunum hafa gildan passa fyrir úrslitakeppnina.

Heppnir vallargestir fá að spreyta sig á Subwayskotinu þar sem flottir vinningar frá Subway eru í boði. Á leikdögum í úrslitakeppninni verður SMASS á Fitjum í Reykjanesbæ einnig með tilboð fyrir stuðningsmenn (muna að mæta merkt Njarðvík).

Njarðvíkurbolir verða til sölu á leikdögum, við höfum gert nýja boli fyrir þessa úrslitakeppni og kostar stykkið litlar 3000 kr. fyrir fánann!

Nú er veislan hafin og við hvetjum alla Njarðvíkinga til þess að hífa sína Njarðvíkurfána að húni og hafa flaggað í úrslitakeppninni – mætum og styðjum okkar lið! #ÁframNjarðvík