Um deildina
Glímudeild UMFN var formlega stofnuð miðvikudaginn 8. september 2010. Fyrsta stjórn félagsins var skipuð Guðmundi Stefáni Gunnarssyni, formanni og þjálfara allra flokka félagsins, Gunnari Erni Guðmundssyni varaformanni, Soffíu Jakobsdóttur gjaldkera, Eydísi Mary Jónsdóttur ritara og meðstjórnendur voru Sigurbjörg Gunnarsdóttir og Björgvin Jónsson. Haustið 2011 var haldin aukaaðalfundur og ný stjórn kjörin. Í janúar 2011 byrjuðu fyrstu æfingar deildarinnar. Skömmu eftir stofnun GDN voru um 30 iðkendur á öllum aldri. Í maí 2011 voru iðkendur orðnir 60 talsins. Í lok árs 2011 voru um 105 skráðir iðkendur í deildina. Deildin hefur vaxið og dafnað og það er ánægjulegt að segja frá því að stúlkum hefur fjölgað verulega í iðkendahópnum. Síðustu misseri hefur verið boðið uppá séræfingar fyrir stúlkur og einnig fyrir börn með pólsku að móðurmáli.
Glímudeild UMFN hafði frá stofnun gefið börnum og unglingum tækifæri á að æfa glímu án endurgjalds með vel menntuðum þjálfurum og í topp aðstöðu sem deildin er í núna í dag. Síðla árs 2013 ákvað Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar að byrja aftur með hvatagreiðslur. Samhliða þeirri ákvörðun ákvað stjórn GDN að æfingargjöld skyldu sett á sem yrðu jafn há hvatagreiðslunum. Með þessu vildi stjórnin tryggja betur fjárhagslegt sjálfstæði deildarinnar en jafnframt gefa þeim sem vildu æfa glímu kost á því að fá æfingargjöld sín endurgreidd, og þannig halda áfram þeirri stefnu að allir geti æft íþróttir óháð fjárhag ungmenna eða foreldra.
Fyrstu mánuðina hafði GDN æfingaaðstöðu í kaffistofu Reykjaneshallarinnar en í nóvember 2012 fékk deildin afhenta nýja og glæsilega æfingaraðstöðu sem GDN deildi með Taekwondódeild Keflavíkur. Í daga æfa deildirnar undir sama þaki við Smiðjuvelli 5 ásamt Hnefaleikadeild Keflavíkur.