ÍM í Kraftlyftingum í NjarðvíkPrenta

Lyftingar

Íslandsmeistaramótið í Kraftlyftingum og klassískum Kraftlyftingum var haldið í Njarðvík síðastliðna helgi. Þetta var fyrsta mótið síðan í byrjun árs þar sem var keppt í öllum þremur greinum í kraftlyftingum. Spennan var því mikil og vel mætt á mótið. 41 keppandi mætti til leiks í klassískum kraftlyftingum og 5 keppendur í kraftlyftingum í búnaði. Fjölmörg Íslandsmet voru slegin á mótinu og það munaði mjóu að heimsmet hefði verið sett. Massi átti 7 keppendur á mótinu í klassískum Kraftlyftingum í hinum ýmsu þyngdar og aldursflokkum. Þau settu 19 Íslandsmet á mótinu.

Íris Rut Jónsdóttir setti Íslandsmet í -63kg opnum flokki kvenna er hún lyfti 141kg í hnébeygju. Hún hélt því miður ekki metinu lengi þar sem Arna Ösp bætti metið um 1,5kg nokkrum mínútum seinna. Íris endaði því í 2.sæti með 366kg í samanlögðu (141/80/145). Það er persónuleg bæting um 28,5kg.

Þóra Kristín Hjaltadóttir og Hulda Ósk Blöndal kepptu báðar í -84kg opnum flokki kvenna. Þóra endaði í 2.sæti í flokknum með 320kg í samanlögðu (120/65/135). Hulda endaði í 3.sæti með 247,5kg í samanlögðu (90/55/102,5).

Elsa Pálsdóttir var í metaham og setti hvorki minna en 18 Íslandsmet á mótinu og varð hún Íslandsmeistari í -84kg öldungaflokki M3 kvenna (60-69ára). Allar gildar lyftur hjá Elsu voru Íslandsmet. Hún endaði með þrennuna 125kg í hnébeygju, 60kg í bekkpressu og 145kg í réttstöðu, sem gerir 330kg í samanlögðu. Hreint út glæsilegur árangur hjá okkar konu.

Sindri Freyr Arnarsson og Jón Grétar Erlingsson kepptu báðir í -83kg opnum flokki karla. Sindri endaði í 2.sæti með 577,5kg í samanlögðu (200/147,5/230), sem er persónuleg bæting um 22,5kg. Jón Grétar var í 3.sæti með 505kg í samanlögðu (165/130/210), sem er persónuleg bæting um 45kg.

Jens Elís Kristinsson varð Íslandsmeistari í -105kg öldungaflokki M3 karla (60-69ára). Hann lyfti 455kg í samanlögðu (157,5/107,5/190) 

Á Íslandsmótinu í kraftlyftingum í búnaði voru engin smá nöfn:  Júlían J. K. Jóhannsson frá Ármanni sló Íslandsmet í +120kg opnum flokki karla þegar hann lyfti 415kg í hnébeygju og 330,5kg í bekkpressu. Júlían lyfti 390kg í réttstöðu í 2.tilraun og gerði svo tilraun til að lyfta 410,5kg sem hefði verið nýtt heimsmet en gekk því miður ekki eftir. En Júlían er einmitt heimsmeistari í réttstöðu í sínum flokki. 

Sóley Margrét Jónsdóttir frá Breiðablik sló Íslandsmet í +84kg opnum flokki kvenna þegar hún lyftir 180kg í bekkpressu og 220kg í réttstöðu. Hún var með 665kg í samanlögðum árangri sem er einnig nýtt Íslandsmet. Guðfinnur Snær Magnússon frá Breiðablik sló Íslandsmet í +120kg unglingaflokki karla er hann lyfti 400,5kg í hnébeygju.

Mótið fór vel fram þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Gæta þurfti sérstaklega sóttvarna á mótinu í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Massi sá um uppsetningu á mótinu en fékk góða aðstoð frá KRAFT sem og öðrum félögum við undirbúning og framkvæmd á mótinu. Við viljum þakka öllum fyrir sem lögðu sitt að mörkum svo að við gátum haldið Íslandsmót með sóma. Við viljum við óska öllum keppendum til hamingju með frábæran árangur. Einnig viljum við þakka styrktaraðila mótsins, OTS verslun kærlega fyrir stuðningin og samstarfið. 

F.h. Massa  

Ellert Björn Ómarsson 

Heildarúrslit ÍM í Kraftlyftingum má sjá hér

Heildarúrslit ÍM í klassískum Kraftlyftingum má sjá hér

Myndir frá mótinu má sjá á Facebook síðu Massa