Haukur í búning þegar Vestri mætir í kvöld!Prenta

Körfubolti

Í kvöld fer Subwaydeild karla aftur af stað eftir landsleikjahlé. Andstæðingar kvöldsins eru nýliðar Vestra frá Ísafirði og hefst leikurinn kl. 18:15. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð2 Sport. Við hvetjum Njarðvíkinga til að fjölmenna á völlinn og það er hraðprófsskylda fyrir vallargesti, nánar hér. Þá er það okkur sönn ánægja að tilkynna að Haukur Helgi Pálsson verður í búning í kvöld í fyrsta sinn á leiktíðinni!

Vestramenn verða ekki einu gestir kvöldsins því í dag mætir ungmenna- og vinalið Njarðvíkur til landsins. Liðsmenn Paterna í stúlknaliðið félagsins eru yfir Atlantshafinu þegar þetta er ritað og munu fylgjast með leik Njarðvíkur og Vestra í kvöld. Framundan er spennandi vika hjá stúlknaflokksliðum Njarðvíkur og Paterna en nánar má sjá fjallað um það verkefni á Facebook-síðu Unglingaráðs Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.

Við hvetjum Njarðvíkinga til að mæta á völlinn í kvöld og skapa góða stemmningu. Fjórir deildarleikir og einn bikarleikur eru eftir af árinu 2021 hjá karlaliðinu og það er hver stórleikurinn sem rekur annan því eftir viðureign kvöldsins gegn Vestra er það næst Stjarnan á útivelli, svo ÍR heima og loks útileikur gegn Keflavík þann 29. desember. Þarna mitt á milli er svo VÍS-bikarleikur gegn Val á útivelli þann 13. desember í 8-liða úrslitum keppninnar þar sem við eigum titil að verja!

#ÁframNjarðvík