Góður sigur í BreiðholtiPrenta

Körfubolti

Það er ekki hægt að segja annað en að Njarðvíkingar hafi mætti vel undirbúnir til leiks í Hertz hellinum í gærkvöldi — bæði andlega og hvað varðar skipulag. Heimavinna og undirbúningur skilar þér hálfa leið og hæfileikar og barátta yfir endamarkið. Njarðvíkingar hafa lesið vel í ÍR-ingana fyrir leikinn og haft hugann við það að þeir koma oftast flatir út í upphafi leiks en vinna svo á þegar líður á leikinn. Rétt eins og eftir forskriftinni, gerðist nákvæmlega þetta í gærkvöldi. Frá fyrstu mínútu virtust ÍR-ingar vera andlausir, latir og hreinlega hálfsofandi í fyrsta leikhluta leiksins. Aðra sögu var hins vegar að segja um gestina sem mættu dýrvitlausir til leiks, rétt eins og þeir væru heima í Ljónagryfjunni. Oft á tíðum mátti halda að svo væri raunin því meira heyrðist í stuðningsmönnum gestanna en þeim sá sátu ÍR megin. Þriðja besta varnarlið deildarinnar stóð heldur betur undir nafni og hélt ÍR í aðeins 11 stigum á fyrstu 10 mínútum leiksins. Af þeim 23 sem ÍR fékk í fyrsta hluta tókst þeim að skora 1 eða fleiri stig í 5 þeirra. Það er skammarleg 24% sóknarnýting og 0,48 stig per sókn. Sjálfir skoruðu Njarðvíkingar 26 stig. Það hafði einnig töluverð áhrif að Matthías Orri fór á bekkinn með 3 villur í lok fyrsta hluta. Frá bekk ÍR heyrðust öskrin í Bjarna Magnússyni, þjálfara langt upp í stúku, þegar hann reyndi að rífa upp liðið sitt úr þunglyndinu. ÍR-ingar vöknuðu úr Þyrnirósarblundinum, fóru að spila körfubolta en það var bara eins og þeir segja á Engilsaxnesku, of lítið og of seint. Njarðvík jók muninn hægt og rólega þar til í byrjun fjórða leikhluta þegar hann var orðinn 24 stig. Þá tók Kristján Pétur málin í sínar hendur, henti niður tveimur þristum og kom sínum mönnum í gang. Stórhríðin hélt áfram á meðan Njarðvíkingar voru um það bil að fagna ótímabært sigri í leiknum og höfðu engin svör. Þristur frá Ragnari Erni Bragasyni þegar rúm mínúta var eftir af leiknum minnkaði muninn í 4 stig, 82-86. Landsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson var þó ekki á því að gefa neitt eftir og fleygði upp þrist úr vinstra horninu strax í næstu sókn. Sá fór niður eins og venjan er hjá leikmanni eins og Loga þegar leikurinn er undir. Eftir leikhlé ÍR-inga fékk Ragnar Bragason, sem sett hafði 6 þrista úr 11 tilraunum fram að þessu, galopið þriggja stiga skot eftir frábæra sendingu frá Matthíasi Orra en það skot geigaði þegar um 50 sekúndur voru eftir af leiknum. Eftir það unnu Njarðvíkingar vel úr klukkunni og innsigluðu mikilvægan 85-91 sigur, þrátt fyrir 22 tapaða bolta í leiknum. Njarðvíkingar hafa því blandað sér all hressilega í toppbaráttuna og eru nú jafnir Stjörnunni að stigum í 4. sæti. ÍR-ingar þurfa hins vegar að stunda innhverfa íhugun næstu daga og gera það upp við sig hvort þeir ætli að taka þátt í Dominosdeildinni næsta vetur, því þeir liggja nú kylliflatir á botni deildarinnar. Í kvöld spiluðu þeir eins og liðið sem á heima á botninum en ekki liðið sem ógnaði toppliðinu í tvíframlengdum leik á þeirra eigin heimavelli fyrir viku síðan. Hjá Njarðvík var það gormurinn Stefan “Boing” Bonneau sem leiddi sína menn með 30 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Logi og Mirko komu honum næstir með 17 stig hvor. Hjá ÍR leiddi fyrrnefndur Kristján Pétur með 18 stig og 10 fráköst. Ragnar Bragi var einnig með 18 stig, öll skoruð fyrir utan þriggja stiga línuna. Matthías Orri var ekki að finna skotið sitt en bætti það upp með 13 stoðsendingum til viðbótar við 9 stig og 7 fráköst. Myndbrot úr leiknum: https://www.youtube.com/watch?v=kNAR-QbzghY Viðtal við Friðrik Inga Rúnarsson eftir leik: https://www.youtube.com/watch?v=WTrI_OvhqE0 Texti/Myndbönd: Jón Björn Ólafsson. Karfan.is