Góður lokasprettur dugði ekki tilPrenta

Körfubolti

Njarðvík mátti sætta sig við grátlegt tap gegn Keflavík b í 1. deild kvenna í kvöld. Lokatölur 63-64 í leik þar sem allt leit út fyrir öruggan sigur Keflavíkur b í síðari hálfleik en öflugur lokasprettur Njarðvíkurliðsins gaf von en allt kom fyrir ekki. Það vantaði ekki tækifærin á því að stela sigrinum í kvöld en stundum vill „hann“ einfaldlega ekki detta.

Lára Ösp Ásgeirsdóttir reyndist Keflavík ill viðureignar í upphafi leiks, gerði 6 af fyrstu 8 stigum Njarðvíkurliðsins sem leiddi 8-7 eftir fimm mínútna leik. Njarðvíkurliðið reyndist ferskari aðilinn þessar fyrstu tíu mínútur og leiddi 20-15 þar sem Lára Ösp lokaði leikhlutanum með flautuþrist spjaldið og ofaní. Lára með 11 stig eftir fyrstu tíu mínúturnar.

Keflvíkingar minnkuðu muninn í 20-19 í upphafi annars leikhluta en Eva María Lúðvíksdóttir setti þá þrist til að slökkva í áhlaupi gestanna og breytti stöðunni í 23-19. Reyndar voru okkar konur full ákfafar í upphafi annars leikhluta og voru Keflvíkingar komnir með skotrétt eftir rúmlega tveggja mínútna leik!

Þristur Evu virtist bara hafa betri áhrif á Keflavík b heldur en heimakonur því Keflavík gerði næstu sjö stig í röð og komust yfir 23-26 með sex mínútur til hálfleiks. Keflvíkingar reyndust mun ákveðnari í öðrum leikhluta og unnu hann 13-25 og staðan því 33-40 í hálfleik. Lára Ösp Ásgeirsdóttir var með 17 stig og 4 fráköst í hálfleik en næst henni var Eva María Lúðvíksdóttir með 7 stig og 2 stolna bolta.

Vörn gestanna hjá Keflavík b hélt áfram að valda Njarðvík vandræðum í upphafi síðari hálfleiks og Keflavík leiddi 33-47 þegar fjóra mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Eftir fimm stigalausar mínútur í þriðja leikhluta tóku Ragnar og Rúnar leikhlé fyrir Njarðvík sem gerði lítið næstu fjórar mínútur því Njarðvík var stigalaust í þriðja í tæpar níu mínútur! Lára Ösp rauf þögnina þegar hún minnkaði muninn í 35-47. Ása Böðvarsdóttir Taylor kom inn af Njarðvíkurbekknum með kærkominn þrist og minnkaði muninn í 38-49 en Keflavík leiddi að loknum þriðja leikhluta 38-50 þar sem leikhlutinn fór 5-10 fyrir Keflavík.

Keflavík b bætti við sig snúningi í fjórða leikhluta, komust í 40-55 og sóknarleikur Njarðvíkurliðsins hélt áfram snauður og þegar fjórar mínútur voru til leiksloka leiddi Keflavík b 43-59. Í andarslitrum leiksins kviknaði líf í leik Njarðvíkurkvenna og þær minnkuðu muninn í 60-64 þegar 1.24 mín. lifðu leiks. Víti og sniðskot á síðustu sekúndum leiksins vildu ekki niður og því fór sem fór, dýrkeypt enda deildin jöfn og Njarðvík nú í 4. sæti með 12 stig.

Lára Ösp Ásgeirsdóttir var besti maður Njarðvíkurliðsins í kvöld með 22 stig og 10 fráköst en henni næst var Vilborg Jónsdóttir með 13 stig og 10 stoðsendingar. Næsti leikur í deild er ekki fyrr en 17. desember þegar Njarðvík mætir Grindavík b á útivelli en núna þann 8. desember fær Njarðvíkurliðið stóra prófraun þegar Keflavík mætir í heimsókn í 16-liða úrslitum Geysisbikarsins í bikartvíhöfða þar sem kvennaleikurinn hefst kl. 16.30 í Njarðtaksgryfjunni og þar strax á eftir mætast grannarnir aftur í karlaflokki Geysisbikarsins. Þetta verður svakalegur sunnudagur, takið daginn frá og

Áfram Njarðvík!

 

Myndasafn

Tölfræði leiksins