Bríet Sif gengin í raðir meistarannaPrenta

Körfubolti

Rúnar heillaði mig upp úr skónum!

Íslandsmeistarar Njarðvíkur hafa samið við bakvörðinn Bríeti Sif Hinriksdóttur og mun því Bríet klæðast grænu á næstu leiktíð í Subwaydeild kvenna. Hvalreki á fjörur Njarðvíkinga sem þegar hafa mátt sjá á eftir Vilborgu Jónsdóttur og Helenu Rafnsdóttur í háskólanám í Bandaríkjunum.

Bríet Sif lék með feiknasterku liði Hauka í vetur og mætti Njarðvík í magnaðri úrslitaseríu. Bríet var með 9,7 stig, 2,8 fráköst og 2,1 stoðsendingu að meðaltali í leik með Haukum í deildinni á síðustu leiktíð.

„Rúnar heyrði í mér og seldi mér þetta rosalega vel. Þetta er flottur klúbbur. Ég bý hérna í Njarðvík þannig að þetta hentaði mér ágætlega, en hann heillaði mig eiginlega upp úr skónum hann Rúnar,“ sagði Bríet í samtali við UMFN.is í dag þegar hún skrifaði undir nýja samninginn.

Bríet lék með Haukum gegn Njarðvíkingum í úrslitum Subwaydeildarinnar en hún segir það ekki setja strik í reikninginn þó tekist hafi verið á í þeirri rimmu. „Það er bara inni á vellinum. Utanvallar eru þetta örugglega æðislegar stelpur og ég hlakka til að kynnast þeim. Ég hef engar erfiðar tilfinningar gagnvart þeim og er bara ógeðslega spennt fyrir komandi tímabili.“

Bríet er alin upp í Keflavík og hún viðurkennir að það hafi gert henni aðeins erfitt fyrir varðandi ákvörðun hennar. „Mér fannst það alveg smá erfitt. Ég var alltaf að hugsa hvað hefði 10 ára Bríet sagt? Hún hefði bara ranghvolft augunum og sagt hvað ertu að hugsa? Svo þroskast maður bara og reynir að sjá þetta í víðara samhengi. Mér fannst því fyrir þetta tímabil þetta vera minn besti kostur.“ Bríet sem hefur verið sigursæl í gegnum tíðina er kokhraust þegar kemur að markmiðum fyrir næsta tímabil. „Ég ætla að vinna, við erum að fara að vinna. Það þýðir ekkert að vinna og gera svo ekkert tímabilið á eftir.“

Velkomin í Ljónagryfjuna Bríet Sif!