Bjarni Jóhannsson og Hólmar Örn Rúnarsson nýir þjálfarar meistaraflokks NjarðvíkurPrenta

Fótbolti

Stjórn knattspyrnudeildar Njarðvíkur hefur ákveðið að ráða Bjarna Jóhannsson og Hólmar Örn Rúnarsson sem aðalþjálfara meistaraflokks félagsins til næstu tveggja ára. Stjórn deildarinnar er virkilega spennt fyrir innkomu Bjarna og Hólmars en það þarf varla að kynna þá fyrir knattspyrnuunnendum hér á landi. Bjarni lét af störfum sem aðalþjálfari Vestra undir lok tímabils og Hólmar lét sömuleiðis af störfum sem spilandi aðalþjálfari Víðis í Garði. Stjórn Njarðvíkur hefur trú á að Bjarni og Hólmar geti lyft knattspyrnunni í Njarðvík á næsta stig, þar sem knattspyrnan í Njarðvík á heima.

Bjarni og Hólmar taka við virkilega góðu búi af fráfarandi þjálfara okkar, Mikael Nikulássyni. Mikael var ráðinn í starf aðalþjálfara Njarðvíkur síðasta vetur og skilaði góðum árangri eftir að hafa tekið við erfiðu búi. Lið Njarðvíkur endaði í fjórða sæti 2. deildar í sumar og enn í séns að komast upp um deild þegar mótið var blásið af. Stjórn knattspyrnudeildarinnar þakkar Mikael fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar í framtíðar störfum sínum.

Stjórn knattspyrnudeildar Njarðvíkur.