Bikarúrslit gegn Stjörnunni á laugardagPrenta

Körfubolti

Njarðvík mætir Sjtörnunni í VÍS-bikarúrslitum á laugardag. Ljónin skelltu ÍR í kvöld 109-87 á meðan Stjarnan lagði Tindastól í spennuslag. Nico og Basile voru stigahæstir í kvöld báðir með 19 stig en sex leikmenn gerðu 12 stig eða meira í grænu í kvöld!

Fyrrum landsliðsmennirnir Gunnar og Teitur Örlygssynir ásamt yfirgrillaranum og landsliðsmiðherjanum Friðriki Erlendi Stefánssyni flamberuðu hamborgara ofan í vallargesti fyrir leik. Það er nokkuð ljóst að deildin verður að gera við þá ráðningarsamning því vel var mætt og borgarinn góður… og boltinn jafnvel betri.

Flottur varnarleikur og góð boltahreyfing gerðu það að verkum að okkar menn voru fljótir að ná forystunni og í raun stinga ÍR af. Nico var beittur í fyrri hálfleik og lauk leik með 19 stig en Dedrick tók svo við keflinu og átti lipra spretti í þeim síðari og kláraði með 19 stig og 8 stoðsendingar.

Framlagið kom úr fjölmörgum áttum og þá var gaman að sjá að þeir Elías Bjarki Pálsson og Jan Baginski mættu vígreifir til vallar og gerðu saman 13 stig.

Nú bíður okkar ærið verkefni gegn Stjörnunni á laugardag en úrslitaleikurinn fer fram í Smáranum í Kópavogi. Fylgist vel með hér á umfn.is og á samfélagsmiðlunum okkar er varðar miða- og bolasölu fyrir helgina. Allir í Smárann!

#ÁframNjarðvík

Tölfræði leiksins
Myndasafn 1
Myndasafn 2