Annasamt sumar hjá yngri flokkunumPrenta

Fótbolti

Það er búið að vera nóg um að vera hjá yngri flokkum knattspyrnudeildarinnar í sumar. Þar sem nú er komið stutt sumarfrí fram yfir verslunarmannahelgi er ekki úr vegi að renna aðeins yfir hvað hver flokkur er búinn að vera að gera. Eftir verslunarmannahelgi hefjast svo æfingar á nýjan leik og verður æft út ágúst.

 

3. flokkur drengja
Strákarnir í 3. flokki eru á fullu á Íslandsmótinu og eru að standa sig vel. Þá fór flokkurinn í frábæra viku æfingaferð til Albir á Spáni í byrjun júní. Þar var æft vel og var spilaður einn æfingaleikur við lið heimamanna og vannst sá leikur. Auk þess að æfa vel var gert heilmargt skemmtilegt og m.a. farið í vatnsleikjagarð og skemmtigarð sem strákarnir skemmtu sér konunglega í. Þjálfari flokksins er Þórir Rafn Hauksson en hann er jafnframt yfirþjálfari yngri flokka.

 

4.flokkur drengja
Það er búið að vera heilmargt um að vera hjá 4. flokks strákunum í sumar en auk þess að keppa fullt af leikjum á Íslandsmótinu fór flokkurinn á Rey Cup og stóð sig vel. Spiluðu meðal annars lokaleik sinn á mótinu við lið frá Kenía sem vannst. Frábær reynsla að fá að mæta liði frá annarri heimsálfu. Þá fóru eldra árs strákarnir í flokknum til Noregs seinni partinn í júní og tóku þátt í vinabæjarmóti fyrir hönd Reykjanesbæjar. Sú ferð var virkilega vel heppnuð og enduðu þeir í 3. sæti í drengja keppninni. Stúlkur í 4. flokki Keflavíkur kepptu einnig á sama móti og unnu þær sína deild. Samanlagður árangur beggja liða tryggði Reykjanesbæ sigurinn á vinabæjarmótinu sem var skemmtilegt. Þjálfari flokksins er Jón Ásgeir Þorvaldsson.

4.flokkur stúlkna
Í 4. flokki stúlkna hjá Njarðvík æfa um tíu stúlkur. Þær byrjuðu flestar að æfa knattspyrnu fyrir rúmu ári síðan og hafa tekið heilmiklum framförum á þessum stutta tíma. Þær eru skráðar á Íslandsmótið í sjö manna bolta í sumar ásamt Álftanesi, Leikni R, KF/Dalvík og Einherja. Sjö manna boltinn er spilaður í törneringaformi og spiluðu stelpurnar okkar við öll þessi lið á Álftanesi í júní og gerðu jafntefli við Leikni og KF/Dalvík en töpuðu fyrir Álftanesi og Einherja. Þær fara svo norður á Dalvík um miðjan ágúst og spila síðari umferðina þar. Stelpurnar kepptu eins og strákarnir í 4. fl. á Rey Cup en við sendum til leiks í 11 manna boltann sameiginlegt lið KF/Njarðvík. Þær unnu nokkra góða sigra og skemmtu sér ótrúlega vel. Þjálfari flokksins er Daníel Örn Baldvinsson.


5. flokkur drengja
Fimmti flokkurinn er með þrjú lið skráð til leiks á Íslandsmótinu í A, B og C liða keppni en í flokknum æfa um 40 vaskir peyjar. A og B lið Njarðvíkur hafa unnið flesta sína leiki í sumar og eru í toppbaráttu. C liðið á undir högg að sækja en gera sitt besta í hverjum leik og eru að taka fínum framförum. 5. flokkurinn tók þátt á N1 mótinu á Akureyri en Njarðvík hefur sent lið til þátttöku á mótið í meira en þrjátíu ár. Þjálfarar flokksins eru þeir Guðni Erlendsson og Ingi Þór Þórisson.

 

5. flokkur stúlkna
Stelpurnar okkar í 5. flokknum eru flestar á yngra árinu og byrjuðu að iðka knattspyrnu í upphafi síðasta starfsárs þegar Njarðvík byrjaði aftur með kvennabolta. Framfarirnar á þessum tíma hafa verið miklar enda æfa stelpurnar vel og hafa tekið þátt á fjölmörgum mótum. Ásamt því að taka þátt á Íslandsmótinu þá fór flokkurinn bæði á TM mótið í Vestmannaeyjum í júní og Símamótið í júlí. Þar stóðu stelpurnar sig vel og höfðu mjög gaman af. TM mótið í Vestmannaeyjum var sérstaklega eftirminnilegt enda margar að fara í fyrsta skipti til Eyja og draumi líkast að keppa á eyjunni fögru. Þjálfari flokksins er Daníel Örn Baldvinsson.

 

6. flokkur drengja
Í flokknum æfa rúmlega 50 drengir og er þetta fjölmennasti flokkur félagsins. 6. flokkur er búinn að fara á öll helstu mót landsins en þar ber helst að nefna Orkumótið í Vestmannaeyjum. Þar stóðu strákarnir sig frábærlega og skemmtu sér konunglega. Við sendum þrjú lið til leiks til Eyja. Lið 1 spilaði til úrslita um Bjarnareyjabikarinn og unnu KR 2-0. Lið 2 keppti einnig til úrslita á mótinu en þeir unnu Hauka 3-0 í úrslitaleik um Surtseyjarbikarinn. Lið 3 sýndu miklar framfarir eftir því sem leið á mótið og urðu reynslunni ríkari. Þá tók flokkurinn þátt í Pollamóti KSÍ í júní og sendum við sex lið til þáttttöku. A, B og D liðin okkar unnu sína riðla. Þjálfarar flokksins eru Ingi Þór Þórisson og Guðni Erlendsson.

6. flokkur stúlkna
Stelpurnar í 6. flokki eru búnar að fara á helling af mótum en aðalmót sumarsins var Símamótið í Kópavogi. Þær hafa staðið sig þrælvel í sumar. Stelpurnar hafa verið að taka stórstígum framförum en þær æfa ótrúlega vel og eru að uppskera eftir því. Þjálfarar flokksins eru Dagmar Þráinsdóttir, Fannar Sigurpálsson og Reynir Aðalbjörn Ágústsson.

 

7. flokkur drengja
Strákarnir í 7. flokki hafa farið á öll helstu mótin hér á suðvesturhorninu en þar ber helst að nefna stórmót sumarsins Norðurálsmótið á Akranesi sem fór fram í júní. Þar stóðu strákarnir sig virkilega vel og halda áfram að taka framförum. Þjálfarar flokksins eru Freyr Brynjarsson og Fannar Sigurpálsson.

 

7. flokkur stúlkna
Stelpurnar í 7. flokki eru ótrúlega kröftugar og bráðefnilegar. Þær hafa farið á öll helstu mótin en þar ber helst að nefna Símamótið í Kópavogi. Við vorum með tvö lið á mótinu og er skemmst frá því að segja að bæði lið stóðu sig frábærlega. Stelpurnar í liði eitt lentu í 3. sæti í A liða keppninni. Töpuðu naumlega 1-2 í undanúrslitum á móti Breiðabliki. Þær unnu svo leikinn um 3. sætið nokkuð sannfærandi. Þá stóðu stelpurnar í liði tvö sig einnig frábærlega en þær töpuðu úrslitaleik og þurftu að láta sér silfrið nægja. Sannarlega frábær árangur. Þjálfarar flokksins eru Dagmar Þráinsdóttir, Fannar Sigurpálsson og Reynir Aðalbjörn Ágústsson.

8. flokkur boltaskólinn drengir og stúlkur
Í 8. flokki æfa okkar yngstu iðkendur og framtíðarstjörnur félagsins. Í flokknum æfa bæði strákar og stelpur saman undir stjórn Freys Brynjarssonar. Æft er tvisvar í viku á þriðjudögum og fimmtudögum og er stefnan sett á Arionbankamót Víkings eftir verslunarmannahelgi.