Allir leikirnir gegn Grindavík miklir baráttuleikirPrenta

Körfubolti

Grindavík verða gestir okkar í Ljónagryfjunni í. kvöld kl. 18.15 í Subwaydeild kvenna. Við höfum löngu eldað grátt silfur saman og því von á skemmtilegri glímu í Gryfjunni í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Umfn.is ræddi við Rúnar Inga þjálfara fyrir leik sem sagði alla leikina við Grindavík hafa verið mikla baráttuleiki.

Hvernig leggst leikur kvöldsins í ykkur?

Leikurinn leggst virkilega vel í okkur, hópurinn er í góðu standi og við viljum koma okkur af stað inn í stóra viku á góðum nótum. Svo er þetta auðvitað alvöru Suðurnesjaslagur og mikil saga á milli þessara leikmannahópa síðustu ár sem hjálpar alltaf í mótiveringu.

Þið hafið haft gott tak á Grindavík til þessa en er leikur kvöldsins á einhvern hátt frábrugðinn þeim sem þið hafið spilað við Grindavík á tímabilinu?

Allir leikirnir við Grindavík hafa verið miklir baráttuleikir og ég held að leikurinn í kvöld verði ekkert öðruvísi. Liðin eru á mismunandi stað og Grindavíkurliðið hefur kannski að engu að keppa núna en þegar þessi lið mætast er alltaf mikið stolt og við leggjum þennan leik upp eins og aðra leiki við þær í vetur.

Eftir að takmarkanir voru nánast með öllu lagðar niður, ertu ánægður með Hjörðina í stúkunni síðustu heimaleiki?

Já virkilega gaman að sjá stemninguna í Hjörðinni og eins og ég hef sagt margoft í vetur þá erum við lið sem þarf þessa auka orku til að ná öllu því besta fram. Ég vona svo innilega að við fáum að sjá fulla Gryfju í þeirri baráttu sem er framundan.

Hverjar eru helstu áherslur okkar kvenna fyrir leik kvöldsins?

Bæta ákvarðanatöku sóknarlega er klárlega ein stærsta áherslan. Annars er þetta bara mjög svipað og í öðrum leikjum, fylgja góðu leikskipulagi varnarlega og hafa gaman af því að spila þessu fallegu íþrótt. Grindavíkurliðið er með einn besta skorarann í deildinni og það er alltaf áskorun að bregðast við hennar leik.

Allir á völlinn #ÁframNjarðvík