1,5 milljón safnaðist í Minningarsjóð ÖllaPrenta

Körfubolti

Í kvöld söfnuðust 1,5 milljón króna í Minningarsjóð Ölla út frá viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur í Domino´s-deild karla. Í dag þann 16. janúar voru 20 ár frá því að Örlygur Aron lést af slysförum. Keflvíkingar höfðu betur í leiknum eftir mikinn slag eins og viðureignir Reykjanesbæjarliðanna eru jafnan… rjóminn í íslenskum körfuknattleik.

Hvað leikinn sjálfan varðar þá hittu Keflvíkingar á svakalegan leik, þristunum rigndi inn og margir þeirra úr býsna erfiðri stöðu. Milka sannaði enn og aftur gæði sín á síðari hluta leiksins og gerði Njarðvíkingum erfitt fyrir. Okkar menn í Njarðvík voru aldrei langt undan og í grænu fór Chaz Williams fremstur í flokki með 36 stig, 7 fráköst og 11 stoðsendingar. Næsti leikur okkar manna er gegn Grindavík í næstu viku í Njarðtaksgryfjunni og það kemur ekkert annað til greina hjá okkar mönnum en að fara beint aftur inn á sigurbrautina!

Fyrir leikinn afhenti stjórn KKD UMFN fyrirliðanum Loga Gunnarssyni viðurkenningu fyrir að hafa leikið 300 leiki fyrir Njarðvík á Íslandsmóti í meistaraflokki. Logi er þar með orðinn sjöundi leikjahæsti leikmaður Njarðvíkur frá upphafi og á aðeins örfáa leiki eftir í að klifra ofar á listann til að taka fram úr Kristni Einarssyni.

Á meðan miðasala inn á leikinn rann öll óskipt í Minningarsjóðinn þá kom einkar skemmtileg tilkynning rétt áður en liðin voru kynnt til leiks. Særún Lúðvíksdóttir móðir Ölla kom þá út á gólf með búning sem reyndist síðasti leikbúningur sem Ölli lék í á ferlinum. Það var búningur frá Stjörnuleik KKÍ þann 15. janúar 2000. Sjálfur búningurinn var í dag keyptur af Coca Cola European Partners fyrir 500.000 kr. og rennur allt söluandvirði búningsins vitaskuld beint til Minningarsjóðs Ölla. Særún Lúðvíksdóttir afhenti Björgu Jónsdóttur rekstrarstjóra sölusviðs hjá CCEP búninginn sem svo síðar fól KKD UMFN það hlutverk að varðveita hann til frambúðar.

Það er ekki hægt að loka þessu kvöldi án þess að minnast á glæsilega framkvæmd hjá Stöð 2 Sport sem var með veglega dagskrá í kvöld. Framkvæmd leiksins var eins og best verður á kosið og niðurstaðan sú að Minningarsjóðurinn fékk þar myndarlega upphæð til áframhaldandi góðra verka ungum íþróttaiðkendum til heilla.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í að gera þennan viðburð eins vel úr garði og raun bar vitni.

Mynd/ Jón Björn – Fulltrúar Minningarsjóðs Ölla ásamt Erlingi Hannessyni vallarkynni leiksins og Kristínu Örlygsdóttur formanni KKD UMFN. María Rut Reynisdóttir frænka Ölla og framkvæmdastjóri sjóðsins er á myndinni ásamt Særúnu Lúðvíksdóttur móður Ölla og frænkum hans tveimur þeim Jane Maríu og Andreu Vigdísi.