Yngvi Gunnlaugsson til starfa í Njarðtaks-gryfjunniPrenta

Körfubolti

Þjálfarinn Yngvi Gunnlaugsson mun bætast í þjálfarateymi karlaliðs Njarðvíkur fyrir komandi leiktíð í Domino´s-deild karla. Yngvi slæst því í för með Einari Árna Jóhannssyni þjálfara og Halldóri Karlssyni aðstoðarþjálfara en Yngvi mun eins og Halldór gegna aðstoðarþjálfarastörfum.

Yngvi mun einnig þjálfa tvo af yngri flokkum félagsins á komandi vetri. Kristín Örlygsdóttir formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur sagði komu Yngva til félagsins mikið ánægjuefni. „Með Yngva kemur mikil reynsla en þarna fer þjálfari sem m.a. gerði Haukakonur að Íslandsmeisturum 2009. Þá er það líka ánægjulegt fyrir yngri flokkana okkar að Yngvi muni láta til sín taka á því sviði og við í Njarðvík mjög spennt að fá hann til starfa,“ sagði Kristín.

Yngvi þjálfaði karlalið Vestra í 1. deild á síðustu leiktíð þar sem liðið hafnaði í 5. sæti deildarinnar með 12 sigra og 9 tapleiki og þá var hann einnig yfirþjálfari yngri flokka Vestra.