Yfirburðir í HólminumPrenta

Körfubolti

Snæfell fékk Njarðvík í heimsókn í Dominosdeild karla. Fyrri leikur liðanna fór 98-83 fyrir fyrir Njarðvík. Hver leikur mikilvægur þegar síga fer á deildarkeppnina og úrslitakeppni nálgast, Snæfell fyrir leikinn í 9. sæti með 16 stig og því ekki með ef úrslitakeppni hæfist í dag en Njarðvík í 4. Sæti með 20. stig og sjá allir að stutt er á milli hláturs og gráturs. Þau klikkuðu ekki mörg skotin á fyrstu skrefum leiksins og eftir jafnar tölur kom Logi Njarðvík í 6-7 með góðum þrist eftir stoðsendingu Stefan Bonneau en Austin Bracey kom svo Snæfelli yfir aftur með einum slíkum 11-9 og þannig kraumaði kakan í upphafi. Snæfellingar náðu að komast yfir 19-16 en jafnræði var í leik liðanna og Njarðvík leiddi 19-23 eftir flautuþrist frá Ágústi Orrasyni. Snæfellingar hittu illa úr teig- og stökkskotum sínum en Sveinn Arnar bætti úr stigaþurðinni með spjaldþrist og kallaði það ekki einu sinni. Njarðvík áttu leiddu 25-32 þegar Logi Gunnars bætti í 25-35 og ógnir Snæfells ekki nægilega sterkar sem og vörnin sem þurfti að bæta í og féllu oft í þá gryfju að gefa körfu með vítaskoti til. Þetta gaf Njarðvík gott svigrúm í sínum leik og settu þeir upp góðann varnarleik og stoppuðu Snæfell æði oft sem gestirnir nýttu í kringum 10 stiga forystu yfir annan fjórðung og voru svo komnir í gírinn rétt fyrir hálfleikinn 34-52. Hjá Snæfelli voru menn ekki á tánum og skrefi eða tveimur á eftir. Stigahæstir voru þar Stefán Karel og Sigurður Þorvaldsson með 8 stig hvor og Chris Woods næstur þeim með 7 stig. Í liði Njarðvíkur var Stefan Bonneau kominn með 16 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar sem næstum því allar gáfu þrista. Hjörtur Hrafn og Logi Gunnars voru með 11 stig hvor. Að rota eða steinrota er orðatiltæki skemmtilegt en það má eiginlega nota á leik Njarðvíkur í upphafi seinni hálfleik en þeir skoruðu þá 10 stig í röð eftir fyrstu tvö Snæfells 36-62 áður en Ingi Þór brá á það ráð að taka cher tíma í skraf og ráðagerðir. Hjörtur Hrafn bætti strax við þremur og áhlaup grænna orðið, 13-0 sem sagt steinrota. Þrjátíu stiga forystan var rofin með 2 stiga lay-up frá Oddi Birni 40-71 og það var einfaldlega frábært að sjá leik Njarðvíkur sem spilaði flottann leik og voru ferskir. Á meðan létu Snæfellingar mótlætið fara í sig líkt og í síðasta leik og sýndu pirring og tuð. Logi þristur, Ágúst þristur og Snorri tvö í lay up og þar með 8-2 á augabragði sýndi í hvað stefndi út leikinn og staðan 47-81 fyrir lokafjórðunginn. Snæfellingar náðu að saxa dálítið niður í 20 stig og pressuðu alltaf við innkast Njarðvíkinga, staðan var 68-88 þegar tæpar fimm mínútur voru eftir. Var þetta of seint­ spurðu menn sig í stúkunni og svarið á þessum tímapunkti já, Njarðvíknigar lögðu grunninn að góðum sigri sínum í Hólminum snemma í leiknum, Stefan Bonneau 1 stoðsendingu frá þrennunni með 35/10/9. Snæfellingar áttu hins vegar aldrei möguleika eftir það. Sannfærandi og öruggur 79-101 sigur Njarðvíkur í Hólminum þetta kvöldið. Snæfell: Chris Woods 20/12 frák. Sigurður Þorvaldsson 17/6 frák. Austin Bracey 17/4 frák. Stefán Karel 10/9 frák. Sveinn Arnar 7. Pálmi Freyr 5. Sindri Davíðsson 2. Óli Ragnar 1. Snjólfur Björnsson 0. Jóhann Kristófer 0. Njarðvík: Stefan Bonneau 35/10 frák/9 stoðs. Logi Gunnarsson 14/5 frák/4 stoðs. Hjörtur Hrafn 14. Ágúst Orrason 6. Mirko Stefán 6/ 13 frák. Snorri Hrafnkelsson 5. Oddur Birnir 4. Magnús Már 4. Ólafur Helgi 2. Jón Arnór 0. Ragnar Helgi 0. Umfjöllun/ Símon B Hjaltalín frá Karfan.is Mynd/ Sumarliði Ásgeirsson