Vilborg og Mario leikmenn októbermánaðarPrenta

Körfubolti

Ljónahjörðin hefur tekið upp á því nýmæli að kjósa leikmenn mánaðarins í meistaraflokki karla og kvenna. Að loknum leik Njarðvíkur og KR í Domino´s-deild karla voru þau Vilborg Jónsdóttir og Mario Matasovic útnefnd leikmenn októbermánaðar.

Það voru stuðningsmenn sem sáu um kosninguna í athugasemdakerfinu á Facebook-síðu deildarinnar. Því miður vantar einn leik inn í tölfræðikerfið hjá Vilborgu en úr því verður bætt afar fljótlega. Vilborg hefur vakið mikla athygli í upphafi tímabils fyrir vasklega framgöngu með 14 stig, 6,3 fráköst og 3,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Mario hefur ekki síður verið í góðum gír enda „alltaf að“ eins og gárungarnir segja í stúkunni. Mario er til þessa með 16,7 stig og 8,7 fráköst að meðaltali í leik og þar af liggja þrjár tvennur.

Meistaraflokkarnir komu saman eftir leikinn gegn KR og gerðu sér glaðan dag þegar leikmenn októbermánaðar voru útnefndir en Vilborg og Mario hlutu gjafabréf að launum frá Olsen Olsen við Hafnargötu. Við þökkum Olsen Olsen kærlega fyrir samstarfið sem og öllum þeim sem lögðu okkur lið við að gera glæsilegt kaffisamsætið.

Mynd/ JBÓ: Friðrik Pétur Ragnarsson formaður KKD UMFN ásamt Mario og Vilborgu við útnefningu leikmanna októbermánaðar.