Veigar Páll og Arnór í Njarðvík semjaPrenta

Óflokkað

Kkd. UMFN samdi við tvo unga og upprennandi körfuknattleiksmenn nú í vikunni.  Veigar Páll Alexandersson er annar af þeim tveim ungu leikmönnum en eins og flestir vita er Veigar Páll uppalinn Njarðvíkingur og svo sannarlega framtíðarefni í meistaraflokkinn.  Veigar fékk smjörþefinn af meistarflokki á síðasta tímabili aðeins 16 ára gamall.  Veigar hefur leikið nánast sleitulaust í yngri landsliðum frá því hann hafði aldur til og miðað við þá vinnusemi sem drengurinn lætur af sér verður hann viðloðandi landsliðin á komandi árum og stefnir í hörku leikmann!

 

Arnór Sveinsson er svo 18 ára gamall leikmaður sem kom til Njarðvíkur á miðju síðasta tímabili úr Keflavík en Arnór er uppalinn í herbúðum Keflvíkinga.  Arnór stóð sig gríðarlega vel með unglingaflokki á lokahluta síðasta tímabils og var stór hluti er liðið varð íslandsmeistari, en kappinn setti t.a.m.niður 23 stig í undanúrslita leiknum.  Arnór hefur upp yngri flokka verið einn besti leikmaður í sínum aldursflokki og líkt og Veigar verið í yngri landsliðum.  Þess má geta að faðir Arnórs spilaði með Njarðvík á sínum tíma og því ekki langt að sækja þá hæfileika sem hann býr yfir. Arnór hefur stimplað sig rækilega inn í Ljónagryfjunni og augljóst að honum líður bara nokkuð vel í grænu.

 

Báðir leikmenn sömdu til tveggja ára og því framtíðin björt í Njarðvíkinni ef líkum lætur.