UMFN b Íslandsmeistari b-liða í 2. deild karlaPrenta

Körfubolti

Á fimmtudaginn 26. apríl mættust b-lið Njarðvíkur og Stjörnunnar í úrslitaleik b-liða í 2. deild karla en leikið var í Ljónagryfjunni. Njarðvík b enduðu efstir í deildinni með 15 sigra og 3 töp en Stjörnustrákar lentu í 4. sæti með 11 sigra og 7 töp. Þessi lið áttust tvisvar sinnum við í vetur þar sem Njarðvíkingar fóru með sigur af hólmi í bæði skiptin.

Njarðvíkurliðið er skipað þjóðþekktum landsliðshetjum í hverri stöðu á meðan Stjörnustrákar eru flestir að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokk. Má segja að reynslan og ungdómurinn hafi mæst á fjölum Ljónagryfjunnar í þetta skiptið.

Leikurinn á fimmtudaginn fór fjörlega af stað þar sem Njarðvíkingar leiddu 22-15 eftir 7 mínútur en þá skiptu Stjarnan yfir í svæðisvörn sem virtist slá heimamenn út af laginu og kom 14-2 kafli hjá gestunum. Staðan 24-29 eftir fyrsta leikhluta. Hjörtur Einarsson fór mikinn í liði heimamanna í fyrsta leikhluta og endaði hann með 11 stig.

Í öðrum leikhluta leiddu gestirnir allan tímann þangað til Magnús Gunnarsson lokaði hálfleiknum með einum af sínum níu þristum og staðan 44-42. Egill Októsson spilaði glimrandi vel í fyrri hálfleik og skoraði öll sín 20 stig í honum.

Spennan hélt áfram í þriðja leikhluta og skiptust liðin á að skora en þó var ákveðið hikst eða þreyta í heimamönnum. Halldór Karlsson, þjálfari Njarðvíkinga ákvað þá að skipta inn bekknum sínum og virkaði það álíka vel og árið 1992 þegar Chicago Bulls lentu í vandræðum á móti Portland Trail Blazers í 6. leik úrslita NBA. Þeir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína í Gryfjuna þetta kvöldið höfðu orð á því að það væri engu líkara en Bobby Hansen, Scott Williams og B.J. Armstrong væru mættir á fjalirnar. Eftir þessa breytingu náðu Njarðvíkingar 14 stiga forystu sem þeir slepptu aldrei hendinni af.

Í fjórða leikhluta var það síðan líkamsástand b-liðs Njarðvíkur sem sigldi Íslandsmeistaratitlinum heim enda leikmenn liðsins þekktir að vera léttleikandi og í toppformi. Lokastaða 82-65.

Stigaskor Njarðvíkinga:

Magnús Gunnarsson 29 stig, Hjörtur Einarsson 24 stig, Páll Vilbergsson 12 stig, Páll Kristinsson 10 stig, Grétar Garðarsson 4 stig, Arnar Freyr Jónsson 3 stig.

Stigaskor Stjörnunnar:

Egill Októsson 20 stig, Grímkell Sig 13 stig, Árni Kristjánsson 12 stig, Bjarni Gunnarsson 11 stig, Óskar Þorsteinsson 4 stig, Axel Þór 3 stig, Ingimundur Jóhannsson 2 stig.

Mynd/ Sigurlið UMFN b