Þrír á blað í fyrsta sinn þegar Njarðvík skellti FjölniPrenta

Körfubolti

Fjölnismenn í fallsætinu mættu í Njarðtaksgryfjuna í kvöld án Viktor Lee Moses sem fór heim til Bandaríkjanna í dag. Fyrir vikið var róður gestanna þungur og sigur heimamanna aldrei í hættu þar sem lokatölur reyndust 117-83 Njarðvík í vil. Chaz Williams var stigahæstur Ljónanna með 28 stig, 5 fráköst og 9 stoðsendingar.

Chaz Williams opnaði leikinn með dembu og heimamenn komust í 8-0 en Fjölnismenn létu ekki stinga sig svo glatt af á upphafsmínútum leiksins og staðan því 26-21 fyrir Njarðvík að loknum fyrsta leikhluta. Chaz var með 12 stig og Srdjan Stojanovic með 9 stig hjá Fjölni.

Í öðrum leikhluta slitu Njarðvíkingar sig afgerandi frá Fjölnismönnum og leiddu 56-37 í hálfleik þar sem Chaz Williams var með 17 stig hjá Njarðvík og Aurimas Majauskas með 11. Hjá Fjölni var Srdjan Stojanovic með 14 stig.

Fjótlega í þriðja leikhluta leiddu heimamenn 80-53 og 89-61 að honum loknum, gestirnir úr Grafarvogi létu þristum rigna með um það bil þolanlegum árangri en komust lítt áfram innan við þriggja stiga línuna og því fór sem fór, lokatölur 117-83.

Þrír leikmenn Njarðvíkur gerðu sín fyrstu stig fyrir félagið í Domino´s-deildinni en það voru þeir Róbert Sean Birmingham (2), Guðjón Karl Halldórsson (2) og Gunnar Már Sigmundsson (2) – til hamingju piltar!

Fyrir viðureign kvöldsins voru Fjölnismenn fallnir í 1. deild og Ljónin sem fyrr í 5. sæti eftir úrslit kvöldsins. Þá er aðeins einn leikur eftir hjá okkar mönnum í deildarkeppni Domino´s-deildarinnar þegar við mætum Þór Þorlákshöfn 19. mars á útivelli í lokaumferð deildarinnar.

Sjá leikinn á Youtube – Njarðvík TV
Tölfræði leiksins
Myndasafn