Tap gegn HaukumPrenta

Körfubolti

Haukar unnu langþráðan sigur í Domino´s deild karla í kvöld þegar Njarðvíkingar komu í heimsókn. Njarðvíkingar fengu lokaskotið en það vildi ekki niður og Haukar fögnuðu því 67-66 sigri. Fyrir viðureign kvöldsins höfðu Haukar tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum en Njarðvíkingar unnið tvo síðustu. Viðureigning tafðist um nokkrar mínútur þar sem leikklukkan vildi ekki hlýða starfsmönnum ritaraborðsins og töfin varð snöggtum lengri þegar Dustin Salisbery fékk högg á síðuna og hlúa þurfti að honum eftir þetta klafs í fyrsta frákastinu. Allt komst þetta þó á skrið að endingu og fundu Njarðvíkingar sig betur á upphafsaugnablikunum og komust í 2-8. Haukar slógu þó taktinn fljótlega og komust í 19-17 en laglegt samspil hjá Loga og Hirti Hrafni jafnaði leikinn 19-19 um leið og fyrsti leikhluti rann sitt skeið. Þessar fyrstu 10 mínútur voru nokkuð klafskenndar og mistækar en jafnar engu að síður. Haukar unnu annan leikhluta 11-9 og leiddu 30-28 í hálfleik. Þessi annar leikhluti var vægt til orða tekið dapurlegur. Helstu tilþrif hans voru þegar ungviðið missti frisbydisk inn á völlinn fyrir slysni þegar 40 sekúndur voru til hálfleiks. Dustin Salisbery var með 8 stig og 5 fráköst í liði Njarðvíkinga í hálfleik og Haukur Óskarsson var með 9 stig og 5 fráköst í liði Hauka. Eftir þennan annan leikhluta gátu gæði leiksins einfalda ekki gert annað en rjúka upp á við.