#TakkLogiPrenta

Körfubolti

Fyrirliðinn okkar, Logi Gunnarsson, lauk 18 ára landsliðsferli sínum um helgina. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti Loga blómvönd fyrir leikinn gegn Tékklandi og full Laugardalshöll fagnaði hart nær tveggja áratuga framlagi Loga vel og innilega. Stemmningin á Tékkaleiknum var óaðfinnanleg og viðskilnaður Loga við landsliðið eins flottur hugsast gat orðið.

Njarðvíkingar eru stoltir að hafa átt viðlíka leikmann erlendis í atvinnumennsku og á stóra sviðinu með landsliðinu allan þennan tíma en nú þegar Logi segir skilið við landsliðið á hann að baki 147 landsleiki! Þessir leikir gera hann að fjórða landsleikjahæsta leikmanni íslenskrar körfuknattleikssögu. Aðeins Jón Kr. Gíslason, Valur Ingimundarson og Guðmundur Bragason léku fleiri A-landsleiki og ólíklegt að þeirra met verði nokkurntíman bætt. Af þeim leikmönnum sem enn eru virkir með A-landsliðinu er Hlynur Bæringsson efstur á lista með 120 leiki til þessa.

Til hamingju Logi Gunnarsson með glæsilegan landsliðsferil!

Stjórn KKD UMFN

Mynd/ Karfan.is – Bára Dröfn: Logi kynntur til leiks í Laugardalshöll en börn hans fengu að taka þátt í lokaleikmannakynningunni.