Svala, Ingibjörg, Eva og Andrea semja við NjarðvíkPrenta

Körfubolti

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur samdi nýverið við fjóra leikmenn sem verða í baráttunni með Njarðvík í 1. deild kvenna á komandi leiktíð. Það er ánægjulegt að tilkynna að Svala Sigurðardóttir er mætt aftur í Ljónagryfjuna eftir viðkomu hjá Fjölni á síðustu leiktíð. Þá var samið við Evu Sól Einarsdóttur, Ingibjörgu Helgu Grétarsdóttur og Andreu Rán Davíðsdóttur en allar eru þær uppaldir leikmenn félagsins

Að lokinni síðustu leiktíð hefur umtalsverður fjöldi leikmanna haldið á önnur mið en efniviðurinn er mikill í Ljónagryfjunni og segir Ragnar Ragnarsson þjálfari meistaraflokks kvenna spennandi uppbyggingu fyrir höndum:

„Vissulega voru það vonbrigði að missa jafn marga og sterka leikmenn frá félaginu í lok síðasta tímabils en efniviðurinn í Njarðvík er mjög mikill. Ljóst er að mikil uppbygging er framundan í kvennaboltanum og við erum afar spennt fyrir því verkefni. Ég tók við liðinu í erfiðri stöðu á síðasta tímabili og vonast til að á næstu misserum verði lagður sterkur grunnur að öflugu liði til framtíðar sem verði tilbúið til þess að fara af fullum krafti í baráttuna um alla titla.“

Myndir/ Efri mynd: Ragnar Ragnarsson þjálfari, Svala Sigurðardóttir, Ingibjörg Helga Grétarsdóttir og Eva Sól Einarsdóttir. Neðri mynd: Ragnar Ragnarsson og Andrea Rán Davíðsdóttir.