Annáll 2015
Ný stjórn með kröftugu fólki tók til starfa eftir síðasta aðalfund. Árið fór rólega af stað en það fyrsta sem var ákveðið var að æfingar skyldu áfram verða með sama móti og hefur verið. Júdódeildin hefur haft sín æfingargjöld þau sömu og hvatagreiðslurnar eru frá Reykjanesbæ, sem hækkuðu í 10.000 kr. Fyrir árið 2014 og eru núna 15.000 kr.
Við tóku fjáraflanir þar sem ráðist var í kjötsölu, kaffisölu á Barnahátíð, sala á Ljósanótt, salernis- og eldhúsrúllusala, bingó og sala á jólatengdum vörum. Ákveðið var að þeir iðkendur sem ætla að fara á mót og æfingabúðir á erlendri grundu gætu notað þessar fjáraflanir til að greiða niður kostnað við ferðina.
Farið var í æfinga- og keppnisferð til Lundar í Svíþjóð í byrjun maí. Þar fóru um 10 keppendur og 4 fararstjórar. Ferðin heppnaðist með eindæmum vel og fengu þeir iðkendur sem fóru mjög mikið út úr ferðinni. Bæði hvað varðar ævintýri og ekki síst þjálfun hjá mörgum af bestu þjálfurum heims og æfingu í að keppa við aðra júdó iðkendur í heimsklassa. Ætlunin er að fara í aðra ferð núna í ágúst en nú verður farið til Spánar.
Hjá deildinni starfa núna sex þjálfarar, tveir íþróttafræðingar annar með svarta beltið í júdó og hin í taekwondó, einn svartbeltingur í júdó auk þriggja einstaklinga sem eru í þjálfun hjá ÍSÍ og svartbeltingum deildarinnar. Enn vantar okkur kvenkyns þjálfara og erum við í stöðugri leit af slíkum fyrir kvenkyns iðkendur deildarinnar.
Margir góðir styrktaraðilar styrktu okkur 2015 og þar má meðal nefna, HS Orku og HS Veitur, Securitas, VÍS, SBK, Samkaup og ótal fleiri fyrirtæki og einstaklingar. Þökkum við þessum aðilum kærlega fyrir sýndan stuðning.
Júdódeildin vann fjölmarga titla á árinu. Bjarni Darri Sigfússon íslandsmeistari barna og unglinga í íslenskri glímu, og taekwondo. Birkir Freyr Guðbjartsson íslandsmeistari í Júdó. Ægir Már Baldvinsson íslandsmeistari Unglinga U18 í júdó. Sóley Þrastardóttir Íslandsmeistari í júdó. Jón Axel Jónasson íslandsmeistari í BJJ. Hafþór Árni Hermannson Íslandsmeistari í BJJ og Gunnar Örn Guðmundsson íslandsmeistari í BJJ.