Ragnar: Höfum fulla trú á leið inn í þetta verkefniPrenta

Körfubolti

Úrslitakeppnin í 1. deild kvenna hófst í gær þar sem Grindavík tók 1-0 forystu gegn Þór en í dag þá halda Ljónynjurnar úr Njarðvík í höfuðstaðinn og mæta toppliði Fjölnis í fyrsta leik seríunnar. Fjölnir vann allar þrjár deildarviðureignirnar en Ragnar þjálfari kvennaliðsins segir Njarðvíkurliðið hafa bætt sig mikið í síðustu leikjum. UMFN.is ræddi við Ragnar sem segir hópinn hafa fulla trú á verkefninu. Leikurinn fer fram í Dalhúsum í Grafarvogi og hefst kl. 19:00.

Háannatíð okkar körfuboltafólks að hefjast. Hvernig er staðan á Njarðvíkurliðinu um þessar mundir?
Staðan á liðinu er fín. Eva María hefur verið meidd og ekki náð að beita sér að fullu í síðustu leikjum og verðum við að sjá hvort hún verði búin að jafna sig fyrir fyrsta leik en aðrar eru heilar og hefur vikan farið í að undirbúa okkur sem best fyrir átökin á laugardaginn.

Mætum toppliði Fjölnis í undanúrslitum, við hverju má fólk búast í þessari seríu?
Við reiknum með hörku seríu. Við töpuðum öllum þremur leikjunum á tímabilinu á móti þeim. En við höfum verið að bæta okkur mikið í síðustu leikjum og gáfum þeim hörku leik í loka leik tímabilsins og förum því full af sjálfstausti í þessa leiki. Við höfum fulla trú á okkur farandi inn í þetta verkefni og ætlum okkur sigur.

Hvernig metur þú mögleika Njarðvíkurliðsins í seríunni?
Við teljum okkur eiga góða möguleika á að vinna þessa seríu. Þetta verður erfitt, það eru ekki margar í okkar liði sem hafa farið í svona úrslitakeppni áður en við förum alveg pressulaus í þessa leiki og munum leggja okkur 100% fram og þá geta góðir hlutir gerst.