Öruggur sigur gegn Stjörnunni í síðasta æfingaleik fyrir mótPrenta

Körfubolti

Njarðvík hafði í kvöld öruggan 79-46 sigur gegn Stjörnunni í síðasta æfingaleik Njarðvíkur fyrir komandi átök í 1. deild kvenna. Garðbæingar bitu vel frá sér í fyrri hálfleik en 31-5 kafli hjá Njarðvík í þriðja leikhluta gerði út um leikinn.

Njarðvíkingar byrjuðu vel í kvöld, komust í 7-0 en Stjarnan vaknaði af værum blundi og minnkuðu muninn í 16-14 fyrir annan leikhluta. Í öðrum leikhluta var Bergdís að fara mikinn í liði Stjörnunnar, kom með góða baráttu og setti nokkra þrista og Stjarnan komst í 20-24 en þá hrökk Njarðvíkurvélin í gang og bauð upp á 15-0 sinfóníu fyrir hálfleik og staðan því 35-24 í leikhléi. Ashley var með 17 stig hjá Njarðvík í háflleik og Helena Rafnsdóttir 8.

Í þriðja leikhluta var alger einstefna hjá Ljónynjum sem unnu leikhlutann 31-5 og staðan því 66-29 fyrir fjórða leikhluta og því óþarfi að spyrja að leikslokum. Stjörnunni til málsbóta bitu þær frá sér í fjórða leikhluta en skaðinn var skeður og lokatölur því 79-46 eins og áður segir.

Ashley lauk leik með 21 stig, Helena 15 og Vilborg 12 en Bergdís gerði 15 hjá Stjörnunni og Alexandra 11.

Í óspurðum fréttum:

* Jóhanna Lilja Pálsdóttir og Eva María Lúðvíksdóttir voru enn fjarri góðu gamni og sátu í borgarlegum klæðum á tréverkinu.
* Leikurinn í kvöld var síðasti æfingaleikur hjá kvennaliði Njarðvíkur fyrir komandi keppnistímabil í 1. deild. Fyrsti leikur í deildinni verður 26. september gegn Fjölni b í Njarðtaksgryfjunni.

Svipmyndir úr leiknum