Ólafur Helgi mættur í Ljónagryfjuna á nýPrenta

Körfubolti

Ólafur Helgi Jónsson samdi í dag við Njarðvík og verður því með grænum í átökum Domino´s-deildar karla á næstu leiktíð. Samningur Ólafs við Njarðvík er til næstu þriggja ára. Ólafur Helgi er því mættur heim á nýjan leik svo aðskilnaður hans og Einars Árna Jóhannssonar var ekki langur þar sem báðir voru á mála hjá Þór Þorlákshöfn á síðustu leiktíð.

„Við í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar erum hæstánægð með að endurheimta Ólaf í okkar raðir enda gríðarlega öflugur leikmaður og sterkur karakter. Eins og glöggt má sjá er undirbúningur fyrir næstu leiktíð í fullum gangi því það er ekkert leyndarmál í Njarðvík að hér vill fólk aðeins berjast í og við toppinn,“ sagði Friðrik Pétur formaður Körfuknattleiksdeildar UMFN.

Aðspurður um heimkomuna sagðist Ólafur spenntur að leika á ný með uppeldisfélagi sínu og vinum. „Hér þekki ég best til og tel okkur vera að setja saman mjög sterkan hóp fyrir næstu leiktíð. Vissulega eru fleiri púsl sem eiga eftir að koma saman en þetta lítur vel út og ég er mjög spenntur.“

Mynd/ Ólafur Helgi og Friðrik Ragnarsson formaður KKD UMFN í Ljónagryfjunni í dag.