Nýtt starfsár fer vel af stað – Bjóðum Ingvar Jóns, Írisi Hilmars og Lassa velkomin til starfaPrenta

Fótbolti

Boltinn er farinn að rúlla aftur eftir haustfrí en nýtt starfsár yngri flokka hófst mánudaginn 27. september samkvæmt æfingatöflu. Það er gaman að sjá hvað okkar iðkendur eru spenntir og til í slaginn á nýjan leik. Æfingasókn fyrstu tvær vikur nýs starfsárs hefur verið með besta móti og gleðin við völd.

Búið er að opna fyrir skráningar í Skráningarkerfi UMFN  en það þarf að skrá iðkendur í upphafi hvers starfsárs.

Hver starfandi flokkur hjá okkur er með sína síðu á umfn.is undir Flokkar. Þar er hægt að fá allar helstu upplýsingar varðandi hvern flokk fyrir sig. Hvaða þjálfarar þjálfa flokkinn o.fl.

Iðkendum okkar heldur áfram að fjölga og leggur knattspyrnudeildin áherslu á að halda áfram að bjóða upp á gott og metnaðarfullt starf með góðum þjálfurum.

Það verða ný andlit í þjálfarateymi yngri flokka Njarðvíkur á nýju tímabili. Ingvar Jónsson fyrrum leikmaður Njarðvíkur og Íslenska landsliðsins kemur inn sem þjálfari 7. flokks drengja ásamt Adam Sigurðssyni. Þá verður einnig nýr þjálfari í 7. flokki stúlkna en sú sem tekur við flokknum heitir Íris Hilmarsdóttir en hún þjálfaði síðast hjá Víði Garði. Þá kemur Lars Jónsson eða Lassi eins og hann er oftast kallaður inn sem aðalþjálfari 4.flokks karla. Knattspyrnudeild UMFN býður þau öll velkomin til starfa. Freyr Brynjarsson sem hefur þjálfað 7. flokk drengja undanfarin ár tekur sér pásu frá knattspyrnuþjálfun og þá mun Júlíus Arnar Pálsson, sem hefur verið í aðstoðarþjálfun einnig taka sér pásu frá þjálfun. Knattspyrnudeild Njarðvíkur þakkar þeim kærlega fyrir sitt framlag til félagsins.

Þjálfarar yngri flokka komu saman á dögunum í myndatöku og eru allir mjög spenntir fyrir komandi starfsári.

 

Barna- og unglingaráð
NJARÐVÍK knattspyrnudeild

Leikgleði, samvinna, dugnaður