Ný leiktíð, ný barátta, sama fólkið!Prenta

Körfubolti

Kæru Njarðvíkingar.

Í kvöld hefst enn eitt leiktímabilið hjá okkur Njarðvíkingum þar sem karlaliðið okkar leikur við ÍR í Domino´s-deild karla. Kvennaliðið hefur svo leik á laugardag á útivelli gegn Hamri í Hveragerði í 1. deild kvenna.

Sú stjórn sem nú situr í Njarðtaks-gryfjunni tók við góðu búi sem stýrt var af þeim félögum Frikka Ragnars og Palla Kristins. Í ár teflum við fram sterku karlaliði sem ætlar sér ekkert nema sigur og þeir eru vel meðvitaðir um þær kröfur sem við gerum til þeirra. Kvennaliðinu okkar hefur svo verið spáð góðu gengi í 1. deildinni og við gerum ekki síðri kröfur til þeirra þrátt fyrir almennt ungan aldur í hópnum.

Við erum Njarðvík, við leggjum hug okkar og hjörtu í körfuboltann og ég get ekki beðið eftir því að sjá okkar fólk koma saman og styðja liðin okkar. Oft og mörgum sinnum á síðustu leiktíð varð ég nánast orðlaus yfir þeim stuðningi sem liðin okkar voru að fá í stúkunni, tala nú ekki um hve myndarlegur hópurinn var þegar líða fór á tímabilið, græna hafið!

Mér finnst eins og gömlu góðu dagarnir séu aftur farnir að svífa yfir Njarðvíkurvötnum, það er iður og kliður í mannskapnum og tilhlökkun fyrir komandi leiktíð. Það er ekki svo að skilja að hér sé á ferðinni einhver nostalgía í mér með von um að gullöldin komi aftur. Hún kemur aftur, bara í annarri mynd og við erum að vinna hörðum höndum að henni. Njarðvík er blómstrandi körfuboltafélag með gríðarlegt bakland og fyrir það ber að þakka.

Íþróttir eru miskunnarlausar, við þekkjum það en þær eru líka sameiningarafl og það eru færri betri en við í því að snúa bökum saman góðir Njarðvíkingar. Hlakka til að sjá ykkur á vellinum í vetur, sjáumst í Breiðholti í kvöld og eignum okkur stúkuna. Það er komin ný leiktíð, ný barátta en við erum sama fólkið, fólkið sem gerir allt fyrir fánann og UMFN.

Áfram Njarðvik… alltaf!

Kristín Örlygsdóttir
formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur