Nú dugir ekkert annað en sigur í Grafarvogi!Prenta

Körfubolti

Við vissum að þetta yrði brekka gegn deildarmeisturum Fjölnis og nú er staðan 0-2 fyrir Dalhúsadömum í undanúrslitaeivíginu í 1. deild kvenna. Njarðvíkurkonur áttu mjög flottar rispur í gærkvöldi og hver veit hvað örfá varnarstopp til viðbótar hefðu getað gert. Lokatölur í gær voru 81-87 Fjölni í vil sem þurfa nú bara einn sigur til viðbótar til að komast í úrslit. Ungur en öflugur hópur Njarðvíkurliðsins er aðeins steinsnar frá því að finna lokahráefnið í innhaldslýsingunni fyrir sigur gegn Fjölni. Þriðji leikurinn er í Dalhúsum annað kvöld kl. 20:15 og okkar konur ætla sér ekkert annað en að minnka muninn í 2-1 og fá annan heimaleik í þessa rimmu.

Í þessum öðrum leik voru Fjölniskonur oftar en ekki með yfirhöndina og rétt eins og í fyrsta leik sluppu þær frá okkur í þriðja leikhluta þar sem Njarðvíkurliðið fékk á sig 28 stig. Sóknarleikur okkar kvenna var oft og tíðum flottur og liðinu tókst að fækka töpuðum boltum frá fyrsta leik niður úr 23 í 14 en betur má ef duga skal.

Kamilla Sól Viktorsdóttir fór mikinn í leiknum fyrir Njarðvíkurliðið með 29 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar og Erna Freydís Traustadóttir bætti við 16 stigum og 4 fráköstum. Þá var fyrirliðinn Júlía Scheving Steindórsdóttir með 6 stig og 10 fráköst.

Ljónynjurnar eru komnar með bakið upp við vegg og þá er einmitt tilvalið að spyrna frá og fara kokhraustar í Grafarvog til þess að minnka muninn í seríunni. Við hvetjum alla Njarðvíkinga til að mæta í Dalhús á fimmtudagskvöld kl. 20:15 og styðja við liðið í baráttunni við að færa einvígið aftur í Ljónagryfjuna.

Mynd/ JB – Kamilla Sól sækir að Fjölnisvörninni í gær.

Tölfræði leiksins
Myndasafn