Njarðvík-KR: Rennt yfir sögu félaganna í úrslitakeppninniPrenta

Körfubolti

Njarðvíkingar mæta KR-ingum í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins 2022 og hefst einvígið í Ljónagryfjunni í kvöld miðvikudaginn 6. apríl. Leikurinn hefst kl 18:15 og er ekki sýndur á Stöð2 Sport. Við að sjálfsögðu gerum ráð fyrir troðfullu húsi og mikilli stemmingu. Í tilefni þess að þessi tvö stórveldi mætast skulum við aðeins renna yfir sögu þessara félaga í úrslitakeppninni.

Saga Njarðvíkur og KR í úrslitakeppninni er glæsileg svo vægt sé til orða tekið. Frá því að úrslitakeppnin hóf göngu sína árið 1984 eru þetta tvö sigursælustu liðin með 11 Íslandsmeistaratitla hvort um sig (Keflavík með 9) en sem dæmi þá vann Njarðvík 4 titla í röð frá árunum 1984-1987 en KR-ingar tóku t.d. alls 6 í röð frá árunum 2014-2019.

Fyrsta rimma þessara félaga í úrslitakeppninni var árið 1985. Þá mættust liðin í undanúrslitum og sigraði Njarðvík þá rimmu 2-0.  Síðast mættust þessi lið árið 2018 í úrslitakeppninni og þá sigruðu KR-ingar 3-0. Samtals hafa þessi lið mætt hvort öðru í 15 einvígum í úrslitakeppninni og hafa Njarðvíkingar sigrað 8 rimmur en KR-ingar 7. Heildarfjöldi leikja milli þessara liða í úrslitakeppninni eru 49 og hafa Njarðvíkingar sigrað í 27 þeirra en KR-ingar í 22. Leikurinn á miðvikudaginn verður því leikur númer 50 á milli þessara liða í úrslitakeppninni.

Liðin hafa tvisvar sinnum mætt hvort öðru í lokaúrslitum en það var fyrst árið 1998 þegar Njarðvík sigraði 3-0 og svo árið 2007 þegar KR-ingar sigruðu 3-1 og var núverandi þjálfari Njarðvíkinga Benedikt Guðmundsson þá þjálfari KR-inga.

KR-ingar hafa sigrað fimm síðustu seríur milli þessara liða (2007,2011,2015,2016 & 2018) og hafa sigrað í síðustu fjórum leikjum. Njarðvíkingar hafa ekki unnið seríu gegn KR í 16 ár eða síðan árið 2006 en þá varð liðið Íslandsmeistari. Síðasti sigur Njarðvíkinga gegn KR í úrslitakeppninni var fyrir 6 árum síðan í Ljónagryfjunni eða þann 13.apríl árið 2016. Leikurinn fór 74-68, Logi Gunnarsson setti 16 stig og Maciek Baginski 17 stig en þeir félagar verða í eldlínunni í kvöld.

Staða liðanna í dag er mjög ólík en okkar menn koma inn í þetta einvígi sem deildarmeistarar en KR-ingar rétt náðu inn í úrslitakeppnina með því að tryggja sér áttunda og síðasta sætið eftir flautukörfusigur Stjörnunnar á Blikum.  Látum það þó ekki blekkja því KR-ingar slátruðu okkar mönnum í síðasta deildarleik í Ljónagryfjunni þann 14.mars með 125 stigum gegn 90!! Einnig er það orðið ansi langt síðan Njarðvíkingar slógu KR-inga út úr úrslitakeppninni.

Eftir tvö erfið ár, lituð af covid takmörkunum fer nú í hönd skemmtilegasti tími ársins. Úrslitakeppnin í körfunni er að hefjast, takmarkalaus og ætti fólk að fjölmenna á alla leiki og njóta. Okkar menn byrja gegn KR og þau verða ekki mikið stærri einvígin en þetta. 

Áfram Njarðvík.
Höf: ÖK