Njarðvík-Haukar leikur fjögur líf og fjör!Prenta

Körfubolti

Í kvöld kl. 19:15 mætast Njarðvík og Haukar í sínum fjórða úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Subwaydeild kvenna. Sigur í kvöld tryggir Ljónynjum titilinn og því ætlum við öll að mæta græn með söngröddina að vopni!

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en það er ansi myndarleg dagskrá í undirbúningi fyrir kvöldið og við skulum renna aðeins yfir helstu málin fyrir kvöldið. Ef við byrjum á leiknum sjálfum þá er svona það athyglisverðasta að liðin hafa mæst sjö sinnum á Íslandsmótinu í vetur og allt útisigrar þar á ferðinni. Aliyah Collier hefur farið mikinn með tvær 30/20 tvennur sem er fátt annað en ruddalegt!

Ef við svo vindum okkur að sjálfu umstanginu þá verður Tailgate-tjalið opið frá kl. 17:45 þar sem Friðrik Heimaklettur Stefánsson mun hafa yfirumsjón með grillborgurunum. Við hvetjum alla til að líta við í partýtjaldið enda hefur stemmningin þar verið einstaklega skemmtileg.

Græna hjörðin mætir og ætlar að fara yfir söngtextana fyrir leik og þá munu iðkendur úr minnibolta félagsins slá skjaldborg utan um síðustu mínútur upphitunar hjá liðinu og setja þannig myndarlegan svip á leikinn. Eins verður í boði andlitsmálning fyrir unga fólkið svo allir verði vel merktir í kvöld!

Heiðursgestur kvöldsins er sjálfur hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og það er nú ekki amalegt fyrir Njarðvíkinga að fá að syngja sína bestu söngva fyrir forsetann.

Við minnum á að miðasala fer fram í Stubbur-app og á staðnum og hvetjum fólk til þess að vera tímanlega til að tryggja sér sæti í stúkunni.

Mætum græn
#FyrirFánannOgUMFN